141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og síðasti ræðumaður fjalla um þá atkvæðagreiðslu sem fram fer 20. október og leggja áherslu á að allir stjórnmálaflokkar á þinginu hafa með einum eða öðrum hætti haft jákvæða aðkomu að þessu merkilega ferli. Samfylkingin, Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Hreyfingin hafa allt kjörtímabilið stutt þetta ferli af einurð og sett málið í forgang. Framsóknarmenn gerðu stjórnlagaþing að baráttumáli sínu og forgangsmáli í kosningabaráttunni 2009 þó að þeir hafi síðan skipst í mismunandi hópa eftir afstöðu til stjórnlagaráðs og þess ferils á seinni stigum. Sjálfstæðismenn töluðu á sínum tíma fyrir því að haldinn yrði þjóðfundur um meginlínur stjórnskipunarinnar. Slíkur fundur var haldinn. Tæplega þúsund manns sóttu hann og hann var afar vel heppnaður. Þar var áhersla lögð á tiltekin grunngildi sem mynda grundvöll þess frumvarps sem kosið verður um 20. október. Það er því merkilegt og veldur ákveðnum vonbrigðum þegar forusta Sjálfstæðisflokksins hvetur nú almenning til að segja nei við frumvarpi stjórnlagaráðs sem byggir svo ótvírætt á þeim grunni sem þjóðfundurinn lagði.

Sú endurskoðun stjórnarskrárinnar sem staðið hefur yfir á kjörtímabilinu er einstæð því að hún svarar háværu kalli um beint lýðræði, um traust almennings á stjórnvöldum og þessari stofnun sem hrundi haustið 2008 rétt eins og fjármálakerfið. Höfum í huga að virðing Alþingis verður ekki endurreist með því að menn beri hálstau í þingsalnum eða gangi til kirkju á þingsetningardegi. Virðing Alþingis verður einungis endurreist ef þingheimur sýnir í verki að hann áttar sig á því að róttækra breytinga er þörf á inntaki og ásýnd Alþingis og þeim vinnubrögðum sem tíðkast í þinginu. Hluti af þeirri endurskoðun er að viðurkenna í verki að Alþingi hefur ekki tekist í áratugi að ná fram nauðsynlegum endurbótum á stjórnarskránni sem svarar háværu kalli þjóðarinnar um auðlindir í þjóðareign, um þjóðaratkvæðagreiðslur, um jöfnun (Forseti hringir.) atkvæðisréttar, persónukjör o.s.frv.