141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

störf þingsins.

[14:11]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Við erum að renna út á tíma. Hætta er á að höftin bresti við slit þrotabúa gömlu bankanna. Þá geta kröfuhafar bankanna náð yfirráðum yfir Arion banka og Íslandsbanka. Kröfuhafarnir eru hákarlar sem keyptu kröfur sínar á hrakvirði. Hákarlarnir munu nota bankana sína til að fara í kringum höftin með hörmulegum afleiðingum fyrir almenning. Ef höftunum verður leyft að bresta vegna aðgerðaleysis munu efnahagslegar hörmungar leika þá sem síst skyldi afar illa. Misskiptingin verður óbærileg milli þeirra eignalausu með tekjur í krónum og hinna sem geta flúið land með eignir sínar. Ríkið og fyrirtæki með erlend lán munu ekki geta staðið í skilum af erlendum skuldum sínum.

Frú forseti. Við verðum að hefja skýrt afnám gjaldeyrishafta til að þjóðin verði ekki fyrir enn frekari skaða af rangri efnahags- og peningastjórn. Eina leiðin sem er í boði og felur ekki í sér greiðslufall er upptaka nýkrónu með mismunandi skiptigengi. Hrægömmum sem eiga froðueignir og bólueignir verður þá boðið að skipta yfir í nýkrónu á afar lágu gengi. Ef þeir hafna því halda þeir eignarrétti sínum á gömlu krónunum.

Það er komið að ögurstundu, látum ekki hugleysi verða til þess að þjóðin fari í gegnum aðrar efnahagshörmungar. Stýrum afnámi hafta.