141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

störf þingsins.

[14:18]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hv. síðasta ræðumanni tókst að gera málið í kringum Ríkisendurskoðun algjörlega óskiljanlegt, það var kannski tilgangur hans hér í ræðustól. Það eru dapurleg viðbrögð við þessum atburðum að kalla á lögguna í staðinn fyrir að setjast niður og klára þá skýrslu sem unnið var að. Ég beini því til forseta þingsins, sem er að vísu ekki yfirmaður en eins konar umsjónarmaður ríkisendurskoðanda, að koma þeim skilaboðum áfram.

Hv. síðasti ræðumaður var fyrsti þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem hér talaði og hann minntist á stjórnarskrárkosningarnar og reyndi að skera á milli þjóðfundarins annars vegar og stjórnlagaráðsins hins vegar. Þar eru að sjálfsögðu skýr skil þó að stjórnlagaráðið sé í beinu framhaldi af þjóðfundinum og tengist stjórnlaganefndinni.

Tíðindin í því máli nákvæmlega núna eru þau að formaður þess flokks sem hv. þingmaður tilheyrir hefur lýst afstöðu flokksins til málsins. Maður vonaði auðvitað að stjórnmálaflokkarnir gætu komið sér saman um það í samræmi við gang þessa máls að þáttur þeirra, að minnsta kosti opinber og augljós, takmarkaðist við það að hvetja fólk til að koma að kjörborðinu, að greiða atkvæði. Það hefði verið sæmilegt fyrir stjórnmálaflokkana. En Sjálfstæðisflokkurinn hefur sumsé gengið lengra, hann hefur tekið afstöðu til málsins sjálfs, hann hefur gert málið að flokkspólitísku máli af sinni hálfu. Hann segir nei.

Næsta skref er þá að hann segi okkur við hverju hann segir nei því að það hefur í löngum ræðuhöldum á þinginu, á nefndarfundum og í umræðu í samfélaginu aldrei komið í ljós. Hverju er hann á móti í þessu stjórnarskrárfrumvarpi? Er hann á móti auðlindaákvæðinu? Er hann á móti skýrum reglum um rétt almennings? (Forseti hringir.) Hverju er Sjálfstæðisflokkurinn á móti?

Nú hvet ég hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson til þess að koma hingað upp aftur og segja okkur frá því í (Forseti hringir.) eitt skipti fyrir öll: Af hverju segir Sjálfstæðisflokkurinn nei?

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir enn á tímamörkin.)