141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

störf þingsins.

[14:21]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Eins og oft gerist undir þessum lið eru mörg mál til umfjöllunar. Það sem ég vil taka hér upp eru þær fréttir sem birtust í fjölmiðlum í hádeginu, en það lá fyrir að málið yrði gert opinbert í dag, um að sjávarútvegsráðherrar Evrópusambandsins hafi komið sér saman um og staðfest reglur sem heimila refsiaðgerðir vegna makríldeilu Íslendinga við Evrópusambandið.

Reglurnar eru almennt orðaðar og Ísland og Færeyjar eru ekki nefndar á nafn en það er algjörlega skýrt í ummælum talsmanna Evrópusambandsins og sjávarútvegsstjóra þess, Maríu Damanaki, að þessar reglur eru settar til höfuðs Íslendingum og Færeyingum til að beita í þessari deilu. Haft er eftir sjávarútvegsstjóranum að þarna sé Evrópusambandið komið með öflugt vopn í deilunni við Íslendinga og Færeyinga, skýrara getur það ekki orðið. Jafnvel þótt reglurnar sjálfar séu almennar eru ummæli eins og þessi algjörlega skýr. Meira að segja ríkisstjórn Íslands ætti að vera það ljóst að þessum reglum er beint gegn Íslendingum og Færeyingum vegna makríldeilunnar þannig að það sé sagt algjörlega skýrt.

Ég fer fram á það formlega að ríkisstjórn Íslands mótmæli þessu og tali hátt og skýrt í þeim efnum, mótmæli því að settar séu slíkar reglur sem gera ekkert annað en að herða þessa deilu og koma í veg fyrir og hindra (Forseti hringir.) lausn hennar. Ég fer fram á það við ríkisstjórn Íslands að hún mótmæli þessu hástöfum og geri (Forseti hringir.) það þannig að Íslandi og Íslendingum verði sómi að.

(Forseti (ÁRJ): Enn minnir forseti þingmenn á að virða tímamörk.)