141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fyrirkomulag umræðu um störf þingsins o.fl.

[14:35]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Í þinginu hefur nefnd verið að störfum um nokkurt skeið við að endurskoða þingsköpin. Ég vil beina því til þeirrar nefndar að skoða þennan lið, störf þingsins, í þeirri vinnu sinni. Þetta vinnulag sem við höfum haft, að þeir sem koma inn í salinn rétt fyrir hálftvö geti engan veginn komist að eða tekið þátt í þeirri umræðu sem fram fer, er mjög óheppilegt og skaðar þá umræðu sem á að fara fram, finnst mér, í upphafi þingfundar.

Hér var til dæmis verið að ræða mikilvægt málefni sem er stjórnarskráin og þingmenn Samfylkingar komu upp og kölluðu eftir afstöðu sjálfstæðismanna í því máli en það var ekki nokkur leið fyrir þá þingmenn sem hér voru að komast á mælendaskrá út af því verklagi sem við höfum viðhaft hér. Ég vil í fyllstu vinsemd beina því til þeirra sem starfa í þessari nefnd og til þingsins að taka þetta til endurskoðunar. Það er dálítið hjákátlegt hvernig umræðan þróast þegar þetta er svona og ég held að við getum gert miklu betur með því að breyta þessu og laga það.