141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fyrirkomulag umræðu um störf þingsins o.fl.

[14:39]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég vil koma hingað upp og taka undir með Ólöfu Nordal þingmanni um að það er ótækt undir þessum dagskrárlið að við vitum ekki um hvað á að ræða. Ég kom hingað upp eftir umræðu undir sams konar lið í síðustu viku og gerði athugasemdir við það að enginn þingmaður hefði gefið upp hvað hann ætlaði að fjalla um þó að það sé venjan. Í dag, af því ég er þingflokksformaður og fæ þessar tilkynningar, gáfu fjórir þingmenn upp hvað þeir vildu ræða og tveir þeirra gáfu upp að þeir vildu ræða um stjórnarskrána. Hún var alla vega á dagskrá í dag.

Ég vil brýna fyrir þingmönnum, til þess að þessi umræða verði ekki eitthvert spjall út í bláinn, að þeir láti vita hvað þeir ætli að ræða um þannig að fólk geti stungið sér inn í umræðuna.