141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[15:07]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra veit að þessar stofnanir hafa í öllum megindráttum haldið sig innan þeirra fjárlaga sem þeim voru sett. Þegar Alþingi samþykkti hins vegar að breyta þeim í háskóla var það hluti af þeirri samþykkt að það kostaði meira fé. Alþingi getur ekki verið að samþykkja lög sem hafa fyrirsjáanlega í för með sér kostnað án þess að standa við það. Þetta hefur verið viðurkennt þannig að það gengur einfaldlega ekki upp lagalega að ráðherra ætli að víkja sér undan ábyrgð í þessum efnum.

Uppsafnaðan vanda þessara stofnana ber að leysa og hefði átt að vera búið að leysa fyrir löngu. Legið hafa fyrir loforð frá ráðherrum sem setið hafa á undan núverandi fjármálaráðherra um að leysa þessi mál en ekki hefur verið staðið við þau. Það skýtur skökku við að þessar stofnanir halda einmitt utan um verkefni sem ríkisstjórnin leggur áherslu á, þ.e. græn verkefni, fæðuframleiðslu, ferðaþjónustu o.s.frv. Ég skora á hæstv. ráðherra að koma með afdráttarlausar og jákvæðar yfirlýsingar í þá átt að úr þessu verði leyst eins og fyrirheit hafa verið gefin um á undanförnum árum en ekki hefur verið staðið við.