141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[15:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst gera athugasemdir við það þegar hv. þingmaður talar til mín með þessum hætti og talar um að ég sé að víkja mér undan ábyrgð. Það er af og frá. En almennt séð bera stofnanir og ráðuneyti fulla ábyrgð á fjárreiðum sínum og ef um hallarekstur er að ræða á einu ári skulu þær bera þann halla af fjárveitingu næstu ára á eftir.

Í nokkrum tilfellum eiga stofnanir við gamlan rekstrarvanda að glíma og þá er það á ábyrgð fagráðuneytisins, og þá með samþykki fjármálaráðuneytisins, að gera við þá samning um hvernig skuli fara með bæði rekstrarvanda, ef einhver er, og eins með halaklippingar þegar stofnanir hafa sýnt að þær geti vel haldið sér innan marka.

Mér finnst skynsamlegt að taka á þessu heildstætt. Ég vona svo sannarlega að rekstur landbúnaðarháskólanna gangi vel en það þarf að skoða hallareksturinn heildstætt og taka með réttlátum hætti og sambærilegum hætti á öllum stofnunum landsins.