141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[15:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2012 og ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Ég verð þó að segja í upphafi máls míns að áhuginn fyrir stærsta vandamáli ríkissjóðs, þ.e. skuldastöðunni, er alltaf jafnmikill eða hitt þó heldur. Hér er hægt að telja hv. þingmenn og hæstv. ráðherra með fingrum annarrar handar. Það kannski lýsir skilningnum á verkefninu.

Áður en ég fer að fjalla efnislega um einstaka atriði í þessu frumvarpi vil ég byrja á að segja að það sem hrópar hæst á mann og er mest áberandi í þessu fjáraukalagafrumvarpi er að ekki er gert ráð fyrir auknu eiginfjárframlagi til Íbúðalánasjóðs. Það er mjög sérkennilegt í ljósi þess að nú hefur hv. fjárlaganefnd borist formlegt bréf frá Íbúðalánasjóði þar sem meðal annars er upplýst að alveg frá haustmánuðum 2011 hafi forsvarsmenn Íbúðalánasjóðs verið að ræða við hæstv. velferðarráðherra.

Þetta bréf frá forstjóra Íbúðalánasjóðs er mjög afdráttarlaust. Þar kemur fram að það sé mjög mikilvægt að auka eigið fé um að lágmarki 11–12 milljarða strax í fjáraukalögum til að ná eiginfjárhlutfalli sjóðsins upp fyrir 5%. Það er komið undir 4% þegar þetta bréf er skrifað 20. júlí. Hver er afleiðingin? Hún er sú að lánshæfismat sjóðsins mun lækka og í þessu bréfi er meira að segja vísað til þess að lánshæfismatsfyrirtækin geri skýra kröfu um að sjóðurinn uppfylli reglugerðarmarkmið um eiginfjárhlutfall. Það var staðfest af hálfu matsfyrirtækjanna 28. júlí 2012.

Í þessu fjáraukalagafrumvarpi er hins vegar gert ráð fyrir því að ekki muni liggja fyrir endanlegt uppgjör í ríkisreikningi fyrr en um mitt næsta ár, þ.e. hér er boðað að ekki verði brugðist við þessum vanda Íbúðalánasjóðs. Hvað þýðir það? Það þýðir á mæltu máli að lánshæfismatið mun lækka. Og hvaða afleiðingar hefur það? Það hefur þær afleiðingar að vaxtakjör verða verri sem á endanum mun lenda sem kostnaður á ríkissjóði. Ég geri alvarlegar athugasemdir við það að ekki skuli vera tekið tillit til þess að það þurfi að bæta eiginfjárhlutfall Íbúalánasjóðs. Textinn í frumvarpinu um að það verði skoðað um mitt næsta ár þegar ríkisreikningur liggur fyrir er algjörlega óviðunandi að mínu mati. Þetta mun bara hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.

Margir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar tala nú um breytt vinnubrögð en það er búið að tala nóg um það. Það er búið að tala um það allt þetta kjörtímabil að breyta vinnubrögðum og taka upp meiri aga en síðan er alltaf farið út af sporinu. Það er alltaf litið fram hjá og hugmyndafræðin hér er að setja þetta inn í ríkisreikning ársins 2012 sem kemur út á miðju ári 2013. Hv. stjórnarliðar hafa ekki legið á því að tala um hinn mikla árangur sem þessi hæstv. ríkisstjórn hefur náð (Gripið fram í.) og ætla sér væntanlega að hafa til hliðsjónar að þessi kostnaður falli til eftir að búið er að kjósa til Alþingis. Það eru öll þessi breyttu vinnubrögð. Ég verð að segja að mér finnst þetta mjög varhugavert. Þetta kallar á aukin útgjöld hjá ríkissjóði.

Þá ætla ég aðeins að fjalla um nokkur atriði frumvarpsins sem maður getur bara farið hratt yfir á þeim stutta tíma sem manni er gefinn og síðan á auðvitað eftir að fara yfir frumvarpið í hv. fjárlaganefnd. Sú umræða hefur ekki farið þar fram, heldur einungis með tveimur ráðuneytum. Það er búið að fara yfir fjáraukalagabeiðnir þeirra og við eigum eftir að fara yfir frumvarpið með hæstv. ráðherra og fjármálaráðuneytinu.

Það sem kemur skýrt fram í þessu frumvarpi er að tekjurnar aukast um 10,6 milljarða og síðan eru útskýringar á því sem eru kannski að stærstum hluta þær að þær tekjur sem snúa að skatttekjum einstaklinga aukast um 2,5 milljarða. Þar af eru um 800 milljónir vegna úttektar á séreignarsparnaði, lögaðild 2,5 milljarðar og svo koll af kolli.

Það sem ég staldra fyrst og fremst við er að það eru aukin útgjöld upp á 12,5 milljarða sem er umhugsunarefni. Ég er ekki að fella þann dóm að sum þessara útgjalda séu ekki réttlætanleg, heldur að þó að það standi til að ná tökum á rekstri ríkissjóðs verður alltaf sjálfkrafa einhver útgjaldaaukning. Það er mjög alvarlegt mál. Einn af þessum þáttum sem hér vegur mjög þungt er aukinn vaxtakostnaður ríkissjóðs upp á rúmlega 3,1 milljarð.

Ég vil rifja það upp líka í þessari umræðu að á undanförnum árum hafa einmitt vaxtagjöld ríkisins verið vanáætluð í fjáraukalagafrumvarpinu þannig að þau hafa verið leiðrétt í fjáraukalögunum á viðkomandi árum, 2011, 2010 og 2009, þar sem vaxtakostnaður ríkisins var lægri en gert var ráð fyrir. Það hefur að mörgu leyti verið stór þáttur í að vega upp þá útgjaldaaukningu sem hefur orðið á ríkissjóði á öðrum liðum. Þetta þýðir að á þessu ári munu vaxtagjöld ríkisins verða um 81 milljarður sem er mjög umhugsunarvert. Ég held að það séu ekki miklar deilur um það á þingi að eitt mikilvægasta verkefnið sé að greiða niður skuldir ríkissjóðs en við munum á næstu fjórum árum greiða 370 milljarða í vaxtakostnað.

Ég vil líka minna á það eina ferðina enn að við erum í skjóli gjaldeyrishafta gagnvart vaxtastigi hjá ríkissjóði, ef ég má orða það þannig. Það þýðir á mæltu máli að til að mynda lífeyrissjóðirnir sem eru stærstu aðilarnir sem eru að fjárfesta á markaðnum og mega ekki fjárfesta erlendis eru að kaupa ríkisskuldabréfin í stórum stíl með mjög lágri ávöxtunarkröfu í skjóli gjaldeyrishaftanna. Ef gjaldeyrishöftin hyrfu mundi vaxtastig ríkissjóðs hækka mjög mikið. Þetta er verkefni sem við verðum að taka mjög alvarlega og hvorki í fjárlagafrumvarpinu 2013 né í fjáraukalögunum er að mínu mati sýndur skilningur á því að það þurfi að fara að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Það er hins vegar gríðarlega mikilvægt til að ná tökum á rekstrinum.

Ég var aðeins búinn að hlaupa á helstu þáttum sem útskýra tekjuaukann sem snýr að þessum skatttekjum af einstaklingum og lögaðilum og svo öðrum ótengdum liðum. Það eru smáviðvik hér og þar sem ég ætla ekki að dvelja lengi við og síðan eru það veiðigjöldin sem hækka um 4,2 milljarða. Þetta er það helsta sem snýr að tekjuaukanum og síðan snýr stærsta talan að útgjaldaaukningunni sem er 3,1 milljarður í vaxtagjöldum.

Ég átti orðastað við hæstv. ráðherra áðan og tel mjög mikilvægt að við tökum þá umræðu í þinginu. Þó að hæstv. ráðherra hafi farið yfir það í andsvari að það sé rætt í ráðuneytinu og við Seðlabankann þurfum við að skoða það mjög vandlega. Ég man eftir þessari umræðu í fyrra þegar ég átti orðastað við þáverandi hæstv. fjármálaráðherra sem deildi efasemdum um að við þyrftum stóran gjaldeyrisvarasjóð af því að hann er allur að láni. Það kostar gríðarlega fjármuni að hafa þennan varasjóð og það er umræða sem við þurfum að fara í gegnum og skoða hversu skynsamlegt það er. Það kostar gríðarlega mikið að hafa svona stóran gjaldeyrisvarasjóð sem er allur tekinn að láni.

Eins og ég kom inn á líka áðan í andsvörum við hæstv. ráðherra í sambandi við skuldabréfaútgáfuna sem var farið í er ég mjög hugsi yfir því að bjóða út 1 milljarð bandaríkjadollara á um 6% vöxtum, ef ég veit rétt, til að greiða niður lán frá Norðurlöndunum, öllu heldur greiða inn á lán, með gjalddaga 2016, 2017 eða 2018. Hæstv. ráðherra taldi mikilvægt að sýna fram á að ríkissjóður hefði aðgang að lánsfjármörkuðum og það hefði líka mikla þýðingu fyrir önnur fyrirtæki eins og til að mynda orkufyrirtæki sem hæstv. ráðherra nefndi í sínu svari. Það getur vel verið að svo sé og ég ætla ekki að vera með neinar fullyrðingar um annað en það er umhugsunarefni þegar við erum að taka lán með hærri vöxtum til að greiða niður önnur sem eru með lægri vexti og á gjalddögum 2016, 2017 og 2018. Þetta kostar gríðarlega mikla peninga og er meginástæða þess að við erum að auka vaxtaútgjöld ríkisins um 3,1 milljarð á þessu ári.

Markmiðið með fjáraukalögunum á að vera að bregðast við ófyrirséðum fjárútlátum á árinu þegar fjárlögin hafa verið samþykkt. Þetta á auðvitað að virka svona en oft og tíðum hef ég á tilfinningunni að það virki ekki svona. Því til upprifjunar langar mig að fara aðeins yfir það sem snýr að því sem við erum að vinna í hv. fjárlaganefnd. Þar er samstaðan ágæt og fín. Fjármálaráðuneytið vann í vor fyrir okkur stöðuskjal um framkvæmd fjárlaga árið 2012. Það var mjög fín vinna og ráðuneytið á miklar þakkir skildar fyrir hana. Í framhaldi af því ákvað hv. fjárlaganefnd að kalla til sín þrjá hæstv. ráðherra til að fara yfir stöðuna í ráðuneytum þeirra sem keyrðu fram úr á mörgum stöðum.

Ég skildi svör ráðherranna þannig, og ég held að það hafi margir gert, að þeir hafi eiginlega bara komið til fjárlaganefndar til að segja að fjárlögin væru vitlaus, þau væru bara ekki rétt. Það væri engin vitglóra í því að hafa þessa fjármuni með þessum hætti, þeir yrðu að vera miklu meiri.

Síðan langar mig aðeins að koma inn á það sem hæstv. ráðherra kom inn á áðan í andsvari og snýr að því sem ég hef kallað frystibrúsaaðferð, þ.e. þar sem halarnir eru frystir. Ef rekstrarhalli er á einhverri stofnun er gert samkomulag á milli fagráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins um að viðkomandi stofnun fái að frysta svokallaðan halla gegn því skilyrði að hún haldi sig innan ramma fjárlaga ársins. Ég held að þetta eigi við í flestöllum tilfellum þó að ég viti það ekki alveg. Það getur vel verið að þetta sé skynsamleg ákvörðun en ég er hins vegar hugsi yfir henni og hvet hæstv. ráðherra til að taka það upp með hvaða hætti þetta er gert. Hvaða heimildir hefur framkvæmdarvaldið til að taka þessar ákvarðanir? Þetta er ekki gert með formlegum hætti í fjárlögum eða fjáraukalögum. Hvar eru heimildirnar? Er það bara komið undir ákvarðanatöku hæstvirtra ráðherra, fagráðherra eða fjármálaráðherra, hvaða stofnanir fá frystingu á halla án þess að gerðar verði kröfur um að þær dragi skarpt úr niðurskurði á því ári sem er að hefjast? Það er mikilvægt að gera það rétt.

Það kom líka fram á fundi fjárlaganefndar frá einu fagráðuneytinu að það hefði úthlutað úr svokölluðum óvissusjóði, þ.e. sjóði innan ráðuneytisins, og skýringin var sú að ein ákveðin stofnun sem fékk fjárframlag úr þeim sjóði hafði ekki getað staðið við það skilyrði gagnvart fjármálaráðuneytinu að halda sig innan fjárlaga til að halda samninginn. Þá sjáum við hvað er að gerast, það er kannski verið að reka jafnmarga ríkissjóði og ráðuneytin eru mörg í raun.

Maður staldrar við fullt af hlutum sem ég held að þurfi að ræða nánar í hv. fjárlaganefnd. Þarna er til dæmis 35 millj. kr. framlag til að mæta kostnaði við flutning á hönnunar- og arkitektúradeild Listaháskóla Íslands í nýtt leiguhúsnæði. Þetta verkefni hefur verið vitað um alveg síðan 1999. Síðan kemur þessi beiðni hér inn og þar kemur fram að nú sé þessi deild í þessum skóla komin í 1.000 fermetra stærra húsnæði og mér finnst þetta ekki eðlilegt viðbragð. Þetta hefði átt að koma fram öðruvísi.

Síðan kemur texti um tónlistarnám á vegum sveitarfélaga. Það var gerður samningur vegna tónlistarnáms á vegum sveitarfélaga og þá er gerð tillaga um aukafjármagn upp á 40 milljónir. Það var farið yfir þetta með ráðuneytinu á sínum tíma og ég geri athugasemdir við skýringartextann, þ.e. að í kjölfar samkomulagsins hafi tónlistarskólarnir tekið mun fleiri nemendur í fyrravetur og fjölgað kennurum umfram það sem gert var ráð fyrir í samkomulaginu. Það er það sem okkur var sagt í hv. fjárlaganefnd og þess vegna skil ég ekki hvers vegna lagt er til að þessi fjárheimild verði samþykkt.

Virðulegi forseti. Ég kemst því miður ekki yfir alla þá punkta sem ég ætlaði að fjalla um þannig að ég óska eftir því að vera settur (Forseti hringir.) aftur á mælendaskrá ef einhver annar fer á milli.