141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[16:18]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég met þessa gagnrýni sem kemur úr munni hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, félaga míns í hv. fjárlaganefnd. Auðvitað er það svo að ef maður lúsles fjáraukalagafrumvarpið er enn þá að finna þar ýmis atriði, við getum sagt smávægileg, sem eiga ef til vill ekkert endilega heima í því og fjárlaganefnd hlýtur að taka til umfjöllunar. Ég rak til dæmis augun í 20 millj. kr. kostnað af gjöf Listasafns Sigurjóns Ólafssonar til Listasafns Íslands. Það má vel velta því fyrir sér af hverju það er þarna inni. Er það ófyrirséð? Algjörlega. Er það á mörkunum? Þegar þetta er lesið yfir finnur maður auðvitað nokkur dæmi sem eru á mörkum þess ófyrirséða og eiga að heita afleiðingar af nýrri lagasetningu, þar á meðal þingsályktunum sem við samþykkjum hverju sinni.

Ég tel það verkefni fjárlaganefndar að skoða þetta af heilindum og málefnalega. Það á að vera verkefni fjárlaganefndar að sækjast eftir röksemdum í þessa veru. Hv. þingmaður nefndi nokkur dæmi og ég nefndi eitt dæmi til viðbótar sem þarf að færa rök fyrir. Ef út í það er farið má líka nefna þær rösku 9 millj. kr. sem er verið að leggja fram til Íslenskrar ættleiðingar. Eru þar um ófyrirséð útgjöld að ræða? Auðvitað er það líka á mörkunum, en þar er verið að bregðast við samningi sem hefur ekki náðst að klára. Þegar fjáraukalagafrumvarpið er lúslesið er þar vitaskuld að finna nokkur dæmi sem við þurfum að skoða betur og fjalla um í fjárlaganefnd, en það er einmitt hlutverk hennar.