141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[16:22]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta verða viðfangsefni fjárlaganefndar á næstu dögum eftir því sem við fjöllum meira um fjáraukalagafrumvarpið.

Almennt vil ég segja að það er ákveðinn kerfisleikur, mér liggur við að kalla það því nafni, í gangi þegar framkvæmdarvaldið beinir þeim tilmælum til löggjafans að hann hagi sér á ákveðinn hátt svo það gagnist stofnunum hringinn í kringum landið. Ég hef stundum nefnt það Sundabúðarheilkennið þegar þingmönnum er komið í þá stöðu að þeir eigi að redda ágreiningi forstöðumanna stofnana við framkvæmdarvaldið í Reykjavík.

Ég hef talað fyrir þeirri heildarlausn, ef heildarlausn má kalla, að betur sé farið með opinbert fé nær viðskiptavininum eða skjólstæðingnum í nærsamfélaginu. Ég er mjög gáttaður á því, eftir setu mína á þingi, hvernig fjármunum ríkisins er í mörgum tilvikum miðstýrt úr einu póstnúmeri í stað þess að verkefnum sé útvistað og þau færð nær heim í hérað. Ég nefni til dæmis málaflokk fatlaðs fólks sem ég tel ótvírætt að hafi verið betur komið fyrir hjá sveitarfélögunum en ríkinu. Þar er farið betur með fé og fólk. Ég tel að þegar þessar einingar, sem er á margan hátt stýrt af framkvæmdarvaldinu í Reykjavík, fá að reka sig sjálfar að öllu leyti án afskipta hins miðlæga og miðstýrða (Forseti hringir.) ríkisvalds sé almennt betur farið með ríkisfé og opinbert fé. Þá þurfum við ekki að stinga ýmsum tillögum inn í plagg eins og þessi til að redda hlutunum afturvirkt og framvirkt.