141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[16:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Eins og kom fram í máli hv. þingmanns deilum við þeirri skoðun að æskilegt sé að hafa öll útgjöld í fjárlögum eða fjáraukalögum og breytingarnar séu sem minnstar sem koma inn í ríkisreikning í lokafjárlögum.

Til að árétta það vil ég nefna að á árinu 2011 var gert ráð fyrir því í fjárlögum og fjáraukalögum að hallinn á ríkissjóði væri rúmir 60 milljarðar. Niðurstaða ríkisreiknings varð hins vegar 90 milljarðar, eða 27 milljörðum meiri. Á árinu 2010 var munurinn 23 milljarðar. Það er mikilvægt að forðast þetta.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, sem er varaformaður hv. fjárlaganefndar, út í bréf sem við fengum frá Íbúðalánasjóði. Í því benda forsvarsmenn Íbúðalánasjóðs á mikilvægi þess að auka eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs um 11–12 milljarða að lágmarki til þess að Íbúðalánasjóður uppfylli 5% viðmiðið eins og lög og reglur Fjármálaeftirlitsins gera ráð fyrir. Ef þetta verður ekki gert í fjáraukalögum fyrir árið 2012 eins og beiðni hefur komið um þýðir það að lánshæfismat sjóðsins mun lækka. Þetta kemur fram í bréfinu og forsvarsmenn sjóðsins ítreka þetta með því að vitna í lánshæfisfyrirtækin sem gáfu út nýtt lánshæfismat, dagsett 28. júlí. Þá sögðu þau að ef viðmiðið yrði ekki uppfyllt mundi lánshæfismat sjóðsins lækka. Það þýðir í raun og veru að fjárhagsþörf Íbúðalánasjóðs mun aukast ef ekki verður brugðist við núna. Að bregðast ekki við núna heldur setja þetta hugsanlega inn í lokafjárlög eins og gert er ráð fyrir í fjáraukalögunum er að mínu mati mjög vafasöm aðferðafræði.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann um afstöðu hans til þessa máls.