141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[16:33]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég vil í nokkrum orðum bregðast við því sem hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson nefndi áðan, fyrst varðandi það í hvaða stöðu þingmenn eru settir um að koma fram með athugasemdir við einstaka liði í fjáraukalögum eða fjárlögum. Það er ekkert óeðlilegt við það að þingmenn kjördæma, hvar svo sem þau eru, hvort heldur það eru Reykjavíkurkjördæmi norður eða suður, Norðausturkjördæmi, Norðvesturkjördæmi eða Suðurkjördæmi, beri inn við fjárlagagerð eða fjáraukalagagerð athugasemdir sem koma frá þeim sem gerst þekkja til á vettvangi. Ég sé ekkert athugavert við það, ég tel það þvert á móti skyldu þingmanna að vakta slíka umræðu alla þannig að landsmenn njóti sem mests jafnræðis í þeirri þjónustu sem ríkinu er ætlað að sinna.

Við verðum hins vegar að vera fólk til að gæta þess að týna okkur ekki í umræðunni um þessa þætti þegar við erum að ræða fjárlög eða fjáraukalög íslenska ríkisins. Það vill hins vegar oft verða þannig að menn detta í þann forarpytt að fara að nudda hver öðrum upp úr kjördæmapoti og því um líku í stað þess að horfa til heildarmyndarinnar. Þessir þættir eru vissulega þess virði að skoða en við megum ekki gleyma okkur algjörlega við þá.

Ég vek hins vegar athygli á því hversu illa og lélega er mætt við umræðu um þessi fjáraukalög. Hæstv. ráðherra hefur ræktað þessa umræðu mjög vel, ég vil taka það strax fram, en ég nefni sem dæmi að hér hefur ekki sést einn einasti framsóknarmaður í dag. Þeir eru kannski allir að skipta um kjördæmi. [Hlátur í þingsal.] Þessi viðvera ber ekki vott um mikinn áhuga á efninu, það er næstum engin þátttaka í umræðunni. Ég virði hæstv. forseta, hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson, mjög mikils, hann er með eindæmum samviskusamur þingmaður þannig að ég geri engar athugasemdir við hann enda er hann bundinn í forsetastól.

Almennt séð er þátttaka þingmanna í umræðu um fjárlög íslenska ríkisins fremur dapurleg. Það er synd, sérstaklega þegar þess er gætt hversu mikið er undir í þessum efnum. Ég nefndi til dæmis í ræðu minni áðan skuldsetningu ríkissjóðs og við sjáum það ágætlega í greinargerðinni sem liggur fyrir um frumjöfnuðinn og áætlanir um hann að hann er vissulega áætlaður jákvæður á rekstrargrunni upp á 34–35 milljarða. Hann er neikvæður á greiðslugrunni upp á rúma 17 milljarða. Þarna er sveifla á milli sem þarf að fjármagna með einhverjum hætti. Þetta er stóra myndin sem okkur ber að ræða. Okkur ber að takast á við hana. Ég skal fyrstur manna viðurkenna að við erum ekki mjög vel í stakk búin til að greina alla þá þætti í fjárlaganefnd. Um hina þættina sem oftar en ekki verða svo ríkjandi í umræðunni, hvort heldur þeir lúta að snjómokstri hjá Vegagerðinni, heilbrigðisþjónustunni, rekstri einstakra stofnana eða öðru, er full ástæða til að ræða en undir þeim formerkjum að landsmenn allir eigi sama rétt til þjónustu, hvar svo sem þeir búa á landinu, og þess gætt að það sé gert sambærilega. Þess vegna tók ég þetta dæmi sem ég nefndi í andsvari við hv. þingmann áðan, það er verið að bæta fjórum heilbrigðisstofnunum tiltekinn rekstrarþátt, en fjöldi annarra liggur óbættur hjá garði og ég geri athugasemdir við það.

Það liggur fyrir að það er búið að gefa tilteknum stofnunum á sviði heilbrigðisþjónustu vilyrði um að frysta hallann en aðrar hafa fengið skuldabréf sem enginn veit hvar liggur. Svo eru ekki efnd fyrirheitin um að frysta hallann og þá eru stjórnendurnir settir í þá stöðu að þurfa að reka stofnunina með halla og svo standa öll ráðuneytin upp og benda bara á hæstv. fjármálaráðherra. Þau segja að þetta sé allt honum að kenna. En það er ekkert allt honum að kenna, heldur okkur vegna þess að við eigum að taka þessi mál hér upp og gera bragarbót á þeim. Af þeirri ástæðu hef ég kallað eftir þeim upplýsingum sem hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson, varaformaður fjárlaganefndar, þekkir í fjárlaganefnd. Ég veit vegna fyrri starfa að formaður og varaformaður fjárlaganefndar hafa aðgang að öllum þessum upplýsingum og vita vel hvað er á ferðinni. Við hinir nefndarmennirnir höfum eðlilega ekki sama greiða aðganginn og þeir hafa og þurfa að hafa í ljósi stöðu sinnar. Það er þó lágmarkskrafa að okkur sé gefið færi á að sinna störfum okkar með sama hætti og hv. formaður og varaformaður fjárlaganefndar eiga kost á.