141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[16:39]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir aðkomu hans að þeirri málefnalegu umræðu sem hér hefur farið fram um fjáraukalögin á háu Alþingi í dag. Ég get tekið undir mörg gagnrýnisatriði sem hann hefur sett fram og auðvitað er enginn sérstakur ágreiningur um þau atriði sem hægt er að laga í fjárlagagerðinni og þegar kemur að fjáraukalögunum. Á margan hátt erum við í grunninn sammála um margar þær leiðir sem hægt er að fara út úr þeim vanda sem við okkur hefur blasað á undanliðnum árum. Við þurfum að taka til í ríkisrekstrinum af skilvirkni og við þurfum að beita stofnanir ríkisins, ráðuneyti og framkvæmdarvaldið í heild sinni miklu meira aðhaldi.

Ég kom að því í ræðu minni fyrr í dag að ef til vill væri hægt að taka á þessum vanda til framtíðar með því að færa aukin verkefni frá hinu miðstýrða og miðlæga ríkiskerfi í Reykjavíkurborg út til sveitarfélaganna með samningum. Það má vera valkvætt hvað suma þætti snertir, svo sem þegar kemur að samlegðaráhrifum heilsugæslunnar og öldrunarþjónustu. Það má skilgreina ákveðin þjónustusvæði eins og gert er í málaflokki fatlaðs fólks þegar kemur að 8 þús. íbúa markinu.

Almennt séð langar mig að heyra frá hv. þingmanni og liðsmanni hv. fjárlaganefndar hvort hann deili með mér þeirri sýn á lausn þessa efnis að þessum fjármunum sem því miður eru af skornum skammti sé að mörgu leyti betur komið meðal landshlutasamtakanna, sveitarfélaga og skilgreindra þjónustusvæða og að þar geti menn (Forseti hringir.) ákveðið betur í nærþjónustuhlutverkinu hvernig eigi að deila fjármunum til íbúa.