141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[16:41]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka andsvarið. Ég get í grunninn alveg tekið undir þá hugsun sem felst í því að á tilteknum sviðum sé vel gerlegt og jafnvel vænlegra til árangurs að flytja hluta af ráðstöfunarfé sem næst vettvangi. Það er afstaða sem ég hef haft lengi varðandi tiltekna þætti. Í því sambandi vil ég nefna færslu verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Ég hef verið mjög hallur undir það sem þar hefur verið gert, en það eru líka takmörk fyrir því hvað hægt er að gera í þeim efnum, einfaldlega vegna þess að möguleikar svæða, eða sveitarfélaga eftir því hvernig við horfum til þeirra, eru mismiklir til að annast tiltekna þjónustuþætti.

Ef við eigum að gera þetta svona hljótum við fyrst að taka spurninguna um það hvort við eigum að fara að gera upp á milli svæða eða sveitarfélaga. Það er allt önnur umræða, hvernig svo sem við viljum fara til hennar. Það er vel gerlegt að nálgast hana en ég bendi á að stjórnkerfi minni sveitarfélaga er oft og tíðum vanmáttugra til að takast á við mjög flókið regluverk en stærri sveitarfélaga þó að skilvirknin sé oft meiri í smærri sveitarfélögum en stærri. Þetta eru atriði sem yrði að horfa til þegar horft er til þess hvort færa eigi fjárveitingavald þarna út, en grundvallaratriðið varðandi þá spurningu sem hv. þingmaður varpar upp er hvernig skammtað er í fyrstu. Hvaða þjónustuþætti á að dekka með hvaða fjárveitingum? Þar liggur átakapunkturinn og þar verður erfiðast við að eiga. Það hefur aldrei vafist fyrir Íslendingum að eyða þeim krónum sem þeir hafa úr að spila.