141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[16:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum um frumvarp til fjáraukalaga. Ég ætla að byrja á að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir hversu snemma á ferðinni þetta frumvarp er. Ég man ekki til þess að það hafi nokkurn tímann gerst áður að frumvarp til fjáraukalaga hafi komið svo snemma. Reyndar hef ég margoft lagt það til, hef reyndar sjálfur lagt fram fjáraukalagafrumvarp, að í hvert skipti sem útgjöld ríkisins eru aukin með lögum eða þingsályktunum Alþingis fylgi því jafnframt fjáraukalög, þannig að það liggi strax fyrir hvaða kostnað menn eru að fara út í en það komi svo ekki allt í einni bendu í lok ársins. Sömuleiðis ef eitthvað óvænt gerist, það er að gerast allt árið, það verða eldgos, jarðskjálftar og slíkt, þá sé það metið strax og sett í fjáraukalög. Ég mundi segja að fjáraukalög ættu að koma fjórum sinnum á ári til að menn viti betur.

Það ætti náttúrlega að vera sameiginlegt verkefni allra þingmanna að búa svo um hnútana að fjárlög standist. Það á að vera markmið okkar allra að það gerist. Þess vegna væri ágætt að fá — ég hef ekki séð það í þessu frumvarpi, það má vel vera að það sé einhvers staðar, en ég vildi gjarnan fá upplýsingar um það hvernig fjárlög síðustu tíu ára hafa þróast í gegnum fjáraukalög og á endanum í ríkisreikningi, hvernig fjárlög hvers árs hafa breyst, hvað hefur aukist og af hverju? Ég hef einhvern veginn grun um það að í vaxandi mæli sé verið að fela ákveðinn vanda og það minnir dálítið á Grikkland. Ég minni til dæmis á að 47 milljarða halli í A-deild LSR er ekki að fara neitt frá okkur. Þeir 47 milljarðar eru þarna, þeir fara ekki neitt, en það þarf að greiða þá einhvern tímann. Og það er alveg eins gott að gera bara grein fyrir því strax að þessi halli er þarna.

Ég vil benda á gífurlegar lánveitingar þar sem ríkið er að taka lán og verið er að veita heimild til þess hérna. Það er mjög gott að það skuli alla vegana vera gert, að veita heimild til lánveitinga. En þetta eru yfir 200 milljarðar, 217 milljarðar nákvæmlega, herra forseti, svo ég sé nú ekki að slengja hérna 17 milljörðum og sleppa þeim. En þetta er meira en milljón á hvern einasta vinnandi mann á landinu og vandanum því velt yfir á framtíðarskattgreiðendur, börnin okkar o.s.frv. Ég vil að menn viti af því og viti til þess.

Svo eru náttúrlega skuldbindingar sem menn hafa lýst yfir að séu tryggar, ég nefni innstæður í bönkum, rúma 2.000 milljarða. Íbúðalánasjóður til dæmis, þar sem menn hafa lýst yfir að hann sé með ríkisábyrgð, á honum er engin ríkisábyrgð vegna þess að geta þarf um það í fjárlögum eða fjáraukalögum að ábyrgð sé á þeim skuldbindingum. Það gerist ekki þegar til stykkisins kemur, þegar einhver ætlar að fara að innheimta hjá hæstv. framtíðarfjármálaráðherra, þá getur hann neitað ef aðstæður eru þannig í þjóðfélaginu, atvinnuleysi mikið og hörmungar, hann getur neitað og sagt: Þetta stendur ekki í fjárlögum eða fjáraukalögum, þess vegna má ég ekki greiða þetta út.

Hæstv. fjármálaráðherra má ekki greiða neitt úr ríkissjóði samkvæmt stjórnarskrá nema það liggi fyrir í fjárlögum eða fjáraukalögum. Ég ætla að biðja hæstv. fjármálaráðherra að fara í gegnum það í huga sér hvort hún hafi verið að greiða eitthvað úr ríkissjóði sem ekki er í fjárlögum eða fjáraukalögum. Það er nefnilega andstætt stjórnarskránni, bara svo hún viti það. Ég hef þá sagt það.

Hér er ýmislegt áhugavert. Ég ætla nú ekki að taka neitt sérstakt fyrir en nefni eftirfarandi: „Í 3. tölulið 3. gr. eru lagðar til breytingar á heimildum til að veita ríkisábyrgð á lántökum aðila sem heimild hafa til lántöku í sérlögum.“ — Ekki sem sagt í fjárlögum eða fjáraukalögum. Þarna er verið að aðlaga, og það er í sjálfu sér ágætt, en mætti gjarnan gera fyrr, það mætti koma um leið og þessi sérlög væru samþykkt og það liggi fyrir hvernig þetta er. Í fyrsta lagi er lögð til 30 milljarða kr. lækkun vegna Landsvirkjunar en fyrirtækið hefur 60 milljarða lántökuheimild í fjárlögum. Þarna er verið að lækka heimild, það er ágætt, en svo er verið að hækka þessar heimildir mjög víða.

Í 5. gr. er heimild vegna óska Landsvirkjunar um að fá að sameinast Þeistareykjum ehf. Landsvirkjun kaupir sem sagt Þeistareyki ehf. Hér er eftir á verið að fallast á að sameina megi þessi tvö fyrirtæki, annars vegar hlutafélag og hins vegar sameignarfélag. Merkilegt fyrirbæri, Landsvirkjun er ekki hf., er sameignarfélag eins aðila, sem á þá þetta væntanlega með sjálfum sér, sem heitir ríkissjóður.

Á síðu 65 stendur um orlof kennara: „Annars vegar er um að ræða hækkun vegna fjölgunar […] sem mennta- og menningarmálaráðuneytinu láðist að gera ráð fyrir í fjárlögum ársins 2012 í samræmi við samkomulag með kjarasamningi.“ Þar er verið að auka orlof kennara. Það á náttúrlega ekki að líðast að menn gleymi svona hlutum. Þetta er eitt af því sem við hv. þingmenn þurfum að vekja athygli hv. Alþingis á að við fjárlög eiga menn að vera búnir að fara í gegnum allar skuldbindingar sem gætu hugsanlega komið upp vegna kjarasamninga og annars slíks.

Ég nefni af tilviljun Matvælastofnun. Óskað er eftir 38 millj. kr. fjárveitingu vegna biðlauna fimm héraðsdýralækna. Það hlýtur að hafa legið fyrir þegar menn fóru í fjárlögin á sínum tíma, það er nú ekki langt síðan. Reyndar var gerð breyting á lögum og þá ætti að fylgja þeim lögum fjáraukalög ef leiðir af lögum ákveðin útgjöld.

Svo er verið að auka fjárveitingar til innanríkisráðuneytisins um ríflega 2 milljarða. Þar er óskað eftir 240 millj. kr. fjárheimild til að standa undir útgjöldum við framkvæmd kosningar vegna tillagna stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá, sem á að greiða atkvæði um eftir 25 daga. Ég var ekki búinn að fá bæklinginn minn til að ræða það í sérstakri umræðu. En um leið og samþykkt var að fara í þá kosningu átti að liggja fyrir að mínu mati breyting á fjárlögum eða fjáraukalögum þar sem þetta hefði komið fram, 240 milljónir. Þetta er nokkuð dýr skoðanakönnun, herra forseti, bara til að geta þess.

Svo er talað um títtnefnda Íslenska ættleiðingu. Það eru útgjöld sem hljóta að hafa legið fyrir að þyrfti.

Svo er hérna undarleg beiðni undir liðnum Ýmis framlög innanríkisráðuneytis. „Óskað er eftir 7 millj. kr. fjárheimild vegna uppgjörs á aðkeyptri þjónustu frá Saga Capital vegna verkefna sem lutu að fjármögnun vegaframkvæmda við Reykjanesbraut, Suðurlandsveg, Vesturlandsveg og Vaðlaheiðargöng.“ Þarna er sem sagt einhver aðili — ég bendi á Vaðlaheiðargöng, það er stikkorð — sem hefur verið að aðstoða Vaðlaheiðargöng ehf., held ég það heiti, við að fá fjármögnun til vegaframkvæmdanna eða ganganna. Ég hugsa að þetta sé meginhluti þess. Hér er verið að óska eftir fjárheimild til að greiða reikninginn upp á 7 millj. kr. Það væri nú gaman að fá að vita eitthvað meira um þetta af því að það tengist Vaðlaheiðargöngunum og hver það var sem fór út í þennan kostnað og hvort það hafi þá ekki átt að greiðast með hlutafé. Það er yfirleitt þannig þegar verið er að stofna fyrirtæki.

Svo eru hælisleitendur. Ég fellst hins vegar á að það eru óviss og óvænt útgjöld. Menn geta ekki vitað hversu margir hælisleitendur koma og þeir kosta töluvert. Hér er farið út í aukafjárveitingu vegna þess.

Fjáraukalög eiga að byggjast á tvennu, annars vegar á óvæntum útgjöldum sem koma allt í einu, jarðskjálftar, eldgos, óveður, fjárskaði eða eitthvað slíkt, eða vegna lagasetningar Alþingis. Þá ætti að fylgja þeim lögum breyting á fjárlögum, þ.e. fjáraukalög.

Svo er gert ráð fyrir um 6,5 milljarða kr. lækkun á rekstrarumfangi hjá Vegagerðinni. Mér skilst að þetta sé einhver tilflutningur.

Hjá velferðarráðuneytinu — ég fer nú hratt yfir sögu af því að tími minn er naumur — er gert ráð fyrir að fjárheimildir verði auknar um 3,1 milljarð. Þar er fjölgun bótaþega umfram forsendur fjárlaga, eitthvað sem menn kannski eiga erfitt með að meta í byrjun árs og hefði kannski mátt koma fyrr, ég segi það ekki, en er kannski eðlilegur þáttur í fjáraukalögum.

Gert er ráð fyrir að útgjöld lífeyristrygginga hækki um 1,5 milljarða og byggir tillagan á endurmati á ætluðum útgjöldum ársins. Þarna hafa menn sem sagt misreiknað sig í áætlun. Svo langt sem minni mitt nær eru svoleiðis misreikningar yfirleitt alltaf til aukningar á gjöldum, ekki í hina áttina eins og ætti að geta gerst einstaka sinnum ef þetta væri metið á raunhæfan hátt, þá gæti það sveiflast í báðar áttir. En bótaþegum fjölgar yfirleitt alltaf umfram forsendur fjárlaga.

Tími minn líður hratt. Vinnumálastofnun. Þar er verkefnið Vinnandi vegur sem ég held að sé ágætt verkefni en þar er farið fram á aukafjárveitingu. Um leið og ríkisstjórnin samþykkti það 13. desember 2011, sem sagt áður en fjárlögin voru samþykkt fyrir 2012, hefði þetta átt að liggja fyrir. Greinilega er um vanmat á því að ræða.

Svo er gert ráð fyrir að atvinnuleysisbætur hækki um 1,8 milljarða þrátt fyrir allt tal um minnkandi atvinnuleysi, þannig að ég held að hv. nefnd sem fær þetta til skoðunar þurfi að skoða þetta sérstaklega.

Farið er fram á „hækkun á fjárframlögum til að mæta kostnaði vegna vinnumarkaðsúrræða. Í forsendum fjárlaga 2012“ — og nú kemur aftur sama setningin — „láðist velferðarráðuneytinu að gera ráð fyrir útgjöldum vegna almennra starfsþjálfunarsamninga, reynsluráðninga, átaksverkefna o.fl. en áætlað er að þau verði um 300 millj. kr. á árinu“. Þetta gleymdist. Við, bæði þingmenn og ráðuneyti, ættum að reyna að vanda okkur enn meira við þetta svo við þurfum ekki að horfa upp á slíkar setningar.

Það er fleira hérna. Ábyrgðasjóður launa. Þar er gert ráð fyrir að fjárheimild lækki, sem er líka ánægjulegt að sjá einstaka sinnum.

Hjá fjármálaráðuneytinu er gert ráð fyrir að fjárheimild hækki um 1,7 milljarða. Þar er til dæmis talað um eftirlaunarétt starfsmanna B-deildar LSR og LH sem hafa hafið töku lífeyris. Þarna er ríkið að greiða verðbætur á lífeyri hjá þeim sem eru komnir á lífeyri hjá B-deildinni og ekkert tekið á því. Ég gleymdi því áðan, herra forseti, þegar ég talaði um stóru skuldbindingarnar, að það vantar að sjálfsögðu 400 milljarða hjá B-deild LSR. Það er heldur ekki ríkisábyrgð á því, bara svo ég hafi sagt það.

Ég held að menn ættu að fara að vinda sér í það að fara að taka á öllum þessum skuldbindingum svo við verðum ekki voðalega hissa þegar við lendum í sömu stöðu og Grikkir eftir einhverja áratugi, nema náttúrlega að hagvöxtur vænkist og blómgist og Sjálfstæðisflokkurinn taki við, þá gæti verið að þetta lagaðist allt saman.

Hjá iðnaðarráðuneytinu er gert ráð fyrir að fjárheimild verði aukin um 1,6 milljarða. Þar er stærsti hlutinn vegna endurgreiðslu kvikmyndagerðar og í sjálfu sér er það óvænt en kemur báðum megin hryggjar, þannig að það skiptir ekki stóru máli í niðurstöðu fjáraukalaganna.

Lagt er til að fjárheimild vaxtagjalda ríkissjóðs verði aukin. Það er kannski eðlilegt að einhverju leyti vegna þess að menn geta ekki metið gengið fram í tímann. En aftur mætti maður búast við því að þetta kæmi oftar í fjáraukalögum, þ.e. að fjáraukalög yrðu flutt oftar.

Svo er göngubrú yfir Markarfljót í samræmi við þingsályktun. Sá kostnaðarauki, 5 millj. kr., hefði átt að fylgja með þeirri þingsályktun.

Ég held ég sé búinn að fara í gegnum flestallt. Ég kemst ekki yfir mikið meira, ég held að þetta sé orðið gott. En meginmarkmiðið er að ég þakka fyrir frumvarp sem er snemma komið fram og líka það að (Forseti hringir.) menn reyni að halda sig við fjárlögin alveg til enda.