141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

skattar og gjöld.

101. mál
[17:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Óvíða eru bótalög sett inn í skattalög en það er gert hér á landi með þeim furðulega hætti að skattstjóri borgar barnabætur. Ég hygg að tvísköttunarsamningar taki ekki á svona fyrirbæri. Sömuleiðis eru vaxtabætur húsnæðisbætur, það er sambærilegt, og þær eru settar inn í skattalög. Þess vegna hygg ég að tvísköttunarsamningar taki ekki á þessu en það verður athyglisvert þegar við förum að ræða þetta í hv. nefnd.

Það sem ég átti við um 3. gr. var að fólk sem tók lán í svissneskum frönkum með 1–2% vöxtum, við skulum segja 2% vöxtum, færði væntanlega gengiskostnaðinn til gjalda. Afborganirnar hækkuðu um helming vegna falls krónunnar og fólk borgaði kannski 200 þús. kr. í afborgun, vexti og gengishækkun. Þar af voru kannski 100 þús. kr. í gengishækkun og það kom til frádráttar inn í vaxtabætur. Síðan er það alveg fellt niður og eftir standa mjög lágir vextir sem ég held að þekkist ekki í Íslandssögunni. Þeir eru til í útlöndum náttúrlega þar sem er mikið framboð af fjármagni og mikill sparnaður. Þeir hafa ekki þekkst á Íslandi þar sem er mikil eftirspurn eftir lánum en lítið framboð af sparnaði. Hér er lagt til að þessar vaxtabætur haldist af greiðslu sem menn höfðu greitt en áttu ekki að greiða og fá endurgreitt.