141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[17:41]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Skúli Helgason sagði að hann gerði athugasemdir við þann kafla frumvarpsins þar sem kveðið er á um hvernig eigi að standa að sölumeðferðinni á eignarhlutunum í bönkunum þremur og síðan væntanlega í sparisjóðunum.

Þessi athugasemd er auðvitað mjög veigamikil því að ef við lesum frumvarpið er hvergi kveðið á um að farin skuli sú leið sem hv. þingmaður er að leggja til, að það skuli tryggt við sölu á eignarhlutum í Arion banka, Íslandsbanka og síðan Landsbankanum að dreifð eignaraðild verði að þeim prósentum sem ríkið heldur núna utan um.

Nú spyr ég hv. þingmann: Er það skilyrði hans fyrir stuðningi við þetta frumvarp að þannig verði staðið að sölunni að tryggð verði ákveðin dreifing á eignaraðild?

Nú sjáum við líka í frumvarpinu, t.d. í 3. gr., að lögð er áhersla á það sem kallað er hagkvæmni. Hagkvæmnin er skýrð út þannig að alltaf sé leitað hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluta. Nú er það ekki endilega samrýmanlegt hugmyndum hv. þingmanns um dreifða eignaraðild. Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni um að það eigi að freista þess að dreifa eignaraðild að fjármálafyrirtækjunum, tel þá stefnu í sjálfu sér jákvæða. En við gerum okkur þá grein fyrir því að það er ekki endilega víst að það leiði til þess að við fáum hæsta verð fyrir eignarhlutinn. Nú spyr ég hv. þingmann: Telur hann það koma til greina að slá af hagkvæmnikröfunni, kröfunni um að fá alltaf hæsta verðið, til að tryggja að salan á eignarhlut ríkisins leiði til þess að fleiri hluthafar eignist þann hlut?

Spurningarnar eru sem sagt tvær, annars vegar: Er það skilyrði fyrir stuðningi hv. þingmanns fyrir þessu máli að salan fari fram með þeim hætti sem hv. þingmaður mælti fyrir um og í öðru lagi hvort hann sé þeirrar skoðunar að (Forseti hringir.) slá eigi af hagkvæmnikröfunni í því skyni að tryggja hina dreifðu eignaraðild?