141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[17:45]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú erum við að tala um þetta frumvarp. Það kveður á um að selja þá hluti sem ríkið á í þessum tveimur bönkum, Arion banka og Íslandsbanka. Hv. þingmaður lagði áherslu á það í fyrri ræðu sinni að það væri mjög mikilvægt að þessir eignarhlutir yrðu seldir með dreifða eignaraðild að markmiði.

Nú finnst mér hv. þingmaður aftur á móti vera farinn að sveigja af leið, svo ég gangi ekki lengra, og farinn að tala um að það sé kannski ekki mjög mikilvægt af því að þessir eignarhlutir séu litlir og ekki ráðandi. Ég vil þess vegna ítreka spurningu mína til hv. þingmanns: Er það skoðun hans að það eigi fortakslaust að selja eignarhlutina í dreifðri eignaraðild eða er hann að reyna að búa sér til einhverja útgönguleið til að geta stutt frumvarpið ef það kemur óbreytt út úr fjárlaganefnd eftir yfirferð þar?

Það er út af fyrir sig sjónarmið að það kunni að þjóna almannahagsmunum best að selja eignarhluti til eins aðila eða fárra aðila ef það leiðir til hærra verðs. Það var niðurstaðan þegar verið var að selja bankana. Þeir voru reyndar ekki seldir í einu lagi, á sínum tíma var búið að selja stóra eignarhluti til almennings, tugir þúsunda manna keyptu eignarhluti í Búnaðarbankanum, Landsbankanum og þessum bönkum öllum en síðan var seldur stór hlutur og þá til eins aðila.

Þó að 13% hlutur sé ekki ýkja stór munar þó um hann. Menn tala oft um að ráðandi hlutur sé kannski milli 20% og 30% þar sem um sé að ræða dreifða eignaraðild eins og til dæmis í bönkunum í dag. Það er fullt af vogunarsjóðum sem á í bönkunum í dag en við vitum svo sem ekki hverjir þeir eru og við vitum ekki nákvæmlega hvað þeir eru margir. En við vitum að 13% eignarhlutur er dálítið myndarlegur hlutur. Telur hv. þingmaður að það eigi að vera skilyrðislaus krafa að sá hlutur, svo ég taki hann sem dæmi, verði seldur í dreifðri eignaraðild?