141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[17:47]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að ég hafi skýrt mjög skilmerkilega frá inntakinu í ræðu minni og ef hv. þingmaður fylgdist með henni þyrfti hann ekki að koma hingað upp aftur með sömu spurningu. En inntakið var þetta: Ég tel mjög mikilvægt að dreifð eignaraðild sé grundvallarmarkmið ríkisins við sölu ríkiseigna. Það eru mín meginskilaboð til hv. fjárlaganefndar sem fær þetta frumvarp til meðferðar. Hins vegar sagði ég sömuleiðis að hafa yrði í huga í tengslum við þetta frumvarp að hér er einungis um litla eignarhluti að ræða sem munu ekki ráða úrslitum um samsetningu eigendahóps viðkomandi fjármálafyrirtækja.

Ég er síðan með þá tillögu varðandi þetta tiltekna frumvarp og sölu á þessum eignarhlutum að sú leið verði skoðuð sérstaklega að bjóða almenningi til kaups í almennu útboði verulegan hluta þeirra og jafnvel alla. Ég tel að þau dæmi sem ég tiltók um nýleg útboð á fyrirtækinu Högum og fasteignafélaginu Regin gefi til kynna að það sé mikil eftirspurn á markaði frá hendi almennra fjárfesta eftir eignarhlutum sem þessum. Það eru meginskilaboð mín að þetta grundvallaratriði um dreifða eignaraðild eigi að vera leiðarljós í þessu tiltekna máli.