141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[18:03]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við skulum alla vega hafa einn hlut á hreinu. Það sem hæstv. ríkisstjórn er að leggja til er einkavæðing. Við erum því að ræða hér einkavæðingarfrumvarp, annars vegar á þremur viðskiptabönkum og síðan, með sölunni á eignarhlutum í sparisjóðunum, á sparisjóðunum sömuleiðis. Það liggur þó alla vega fyrir að það er hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar að einkavæða og út af fyrir sig er ég ekki óánægður með að ríkisstjórnin skuli vera að reyna að draga úr umsvifum ríkisins á fjármálamarkaði eins og á öðrum mörkuðum.

Hins vegar er ýmislegt sérkennilegt við þetta. Það er til dæmis dálítið sérkennilegt að hugsa til þess að í raun sé búið að ráðstafa þeim söluhagnaði sem menn sjá fyrir sér að komi út úr þessari sölu. Það er búið að ráðstafa þeim hagnaði til margs konar fjárfestinga ríkisins, í vegamálum og öðru. Áform manna um uppbyggingu í vegamálum munu ráðast af því hvort ríkisstjórnin kemur því fram að selja þessa eignarhluti.

Nú vitum við að þetta er ekki í fyrsta skipti sem ríkisstjórnin hefur boðað að selja eignarhlut ríkisins, bæði í sparisjóðum og í öðrum fjármálastofnunum. Það var líka í fjárlagaforsendunum á þessu ári, ef ég man rétt, og örugglega var það þannig, að ætlunin væri að selja þessa eignarhluti að einhverju leyti og ráðstafa þeim þá til ríkissjóðs. Af ýmsum ástæðum sem við kannski þekkjum, og þekkjum þó ekki, varð ekkert úr því.

Ég held hins vegar að sú einkavæðing sem nú á að fara í fari fram við mjög sérkennilegar aðstæður vegna þess einfaldlega að við vitum alls ekki hverjir aðrir eignaraðilar eru að fjármálafyrirtækjunum okkar í landinu. Það er ekki upplýst. Í raun vitum við heldur ekki hvaða áform eru uppi til frambúðar um rekstur bankanna sem nú eru í eigu erlendra aðila og erlendra vogunarsjóða að einhverju leyti. Hvaða hugmyndir hafa þeir aðilar um rekstur þessara banka? Hvernig sjá þeir framtíðarmyndina fyrir sér? Telja þeir eftirsóknarvert að reka litla banka uppi á Íslandi eða hafa þeir fyrst og fremst áhuga á að fara úr landi með peningana um leið og þeir eiga þess kost? Þeim spurningum er algerlega ósvarað. Það hlýtur því að vera dálítið sérkennilegt við þessar aðstæður að bjóða fram eignarhlut ríkisins í bönkum sem enginn hefur hugmynd um með hvaða hætti eða hvort hugmyndin sé að reka til frambúðar hér á Íslandi.

Nú er ég ekki að boða það að bankarnir fari á harðahlaupum úr landinu en ég er hins vegar að vekja athygli á því að þessi staða er mjög einkennileg. Þegar hin fyrsta einkavæðing fór fram lá það að minnsta kosti fyrir að áformin væru þau að reka viðskiptabankaþjónustu og eftir atvikum fjárfestingarbankaþjónustu eins og málin þróuðust síðan. Nú vitum við hins vegar ekki neitt um það hvernig aðrir eigendur bankanna hafa hugsað sér rekstur þeirra til lengri tíma. Það hlýtur að hafa áhrif á söluverðmæti þessara bréfa hvaða áform þar eru uppi og hvernig menn hafa hugsað sér framtíðina í þessum efnum.

Í frumvarpinu er reynt að sverja fyrir það að ríkisstjórnin hafi í raun selt erlendum aðilum og vogunarsjóðum eignarhlutina í þessum bönkum. Það er sagt með þeim orðum að ríkið hafi í raun aldrei átt þessar eignir og þegar þeir aðilar sem áttu kröfur á gömlu bankana eignuðust þennan eignarhlut hafi því ekki verið um eiginlega sölu að ræða. Þetta er ekki alveg svona einfalt vegna þess að um það var einfaldlega tekin pólitísk ákvörðun að fara þá leið að í stað þess að ríkið kæmi inn með fjármuni í hina nýju banka þá yrðu þeir að hluta til fjármagnaðir þannig að kröfuhafarnir breyttu kröfum sínum í hlutafé og eignuðust þannig ráðandi hlut í bönkunum. Við þekkjum þá sögu alla. Í raun og veru var ákvörðun tekin um að fara þessa sérkennilegu einkavæðingarleið að afhenda bankana, í ljósi krafna kröfuhafa, til óþekktra aðila.

Sumarið 2009, hygg ég hafi verið, leitaðist ég eftir því að reyna að fá úr því skorið hverjir væru eigendur hinna nýju banka. Ég óskaði eftir því við þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra að upplýst yrði hverjir væru 50 stærstu kröfuhafar Glitnis og Kaupþings og þar með 50 stærstu eigendur Íslandsbanka og Arion banka miðað við nýjustu stöðu. Þegar þetta er skoðað getur að líta sitthvað fróðlegt.

Lítum aðeins yfir kröfuhafalistann í Glitni þegar tekið hefur verið tillit til tvílýstra krafna o.s.frv. Mér sýnist að í Glitni hafi stærstu eigendurnir á þessum tíma verið Burlington Loan Management Limited, The Royal Bank of Scotland, DekaBank Deutsche Girozentrale, Crédit Agricole Vita, sem er ítalskur banki, og síðan athyglisverður sjóður sem heitir Thingvellir Fund og Deutsche Bank AG í London. Svipaðan lista má lesa um Kaupþing: Deutsche Bank Trust Company Americas er langstærsti aðilinn. Síðan eru nokkru þar á eftir Commerzbank og Deutsche Trustee Company Limited. Þetta voru með öðrum orðum upplýsingarnar sem lágu fyrir fyrir þremur árum um eignarhaldið.

Nú er verið að boða að ríkið ætli að selja þennan eignarhlut sinn en engar upplýsingar getur að líta í frumvarpinu um það í hvaða kompaní menn fara, með hverjum menn fara í samstarf um rekstur bankanna, hverjir eru eigendurnir.

Nú vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í þetta. Ég geri ekki endilega ráð fyrir að hann hafi það á hraðbergi en veit hæstv. fjármálaráðherra það svona gróflega hverjir eru fimm eða tíu stærstu aðilar og eigendur í þessum bönkum eins og sakir standa? Það getur svo sem hafa breyst á morgun því að í ýmsum tilvikum er um að ræða fjárfestingarsjóði, vogunarsjóði, sem kaupa og selja eignir af þessu tagi eins og að veifa hendi. Sú upptalning gæti verið orðin úrelt á morgun. Engu að síður óska ég eftir því að hæstv. ráðherra geri okkur grein fyrir því, að minnsta kosti í grófum dráttum, hver eigendasamsetningin í þessum tveimur bönkum er. Það hlýtur að eiga erindi inn í umræðuna þegar við ræðum um að fara að selja þessa eignarhluti í bönkunum — og ég ítreka að ég er ekki á móti því að ríkið minnki hlut sinn í þessum bönkum.

Í annan stað ræddum við í andsvari áðan þá hugmynd hvort selja ætti eignarhlutina í dreifðri eignaraðild. Annars vegar er um að ræða sölu á stærri parti úr Landsbankanum og síðan þessa parta úr Arion banka og Íslandsbanka. Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Kom til greina, var það rætt á einhverjum tímapunkti, hvort setja ætti áskilnað um dreifingu á eignaraðild við þessa sölu? Nú skil ég alveg það sem að baki býr, að þarna er um að ræða minnihlutaeign, en þó vil ég segja það sem ég nefndi aðeins í andsvari áðan að 13% eignarhlutur í banka er bara talsvert, það munar dálítið um það. Ég spyr því: Var það inni í umræðunni með einhverjum hætti að binda þetta því að dreifð eignaraðild yrði höfð í huga við sölu á bönkunum? Ef það var rætt varð niðurstaðan greinilega sú, eins og kemur fram í frumvarpinu, að gera það ekki að áskilnaði. Hvers vegna var það? Hver voru rökin fyrir því að fara ekki þá leið?

Í annan stað vil ég aðeins ræða þessi mál almennt og koma svo að sparisjóðunum. Þannig er mál með vexti að ég tel mjög vandasamt við þessar aðstæður að selja eignarhluti ríkisins í sparisjóðunum. Ef við skoðum landslagið í fjármálakerfi okkar þá hefur samþjöppun á fjármálamarkaði aldrei, að minnsta kosti ekki í nýliðinni fortíð, verið jafnmikil og núna. Hún var mun minni á velmektarárunum fyrir 2008 jafnvel þegar stóra fjármálakerfið reis sem hæst. Þegar stóru bankarnir voru sem umsvifamestir var hlutur þeirra í viðskiptabankaumhverfinu mun minni en núna. Samþjöppunin í fjármálakerfinu á Íslandi hefur stórlega aukist á undanförnum árum. Fyrir því eru ýmsar ástæður og við þekkjum þær; fall stórra sparisjóða eins og SPRON og SpKef og slíkra. En þar með er hins vegar ekki öll sagan sögð því að ríkisstjórnin hefur gengið þannig fram, með skattlagningu og ýmsum álögum á fjármálakerfið, að það hefur komið sérstaklega harkalega niður á litlum fjármálafyrirtækjum og sparisjóðum sem ekki fengu þá sömu meðgjöf og nýju bankarnir okkar fengu þegar ákveðið var að afhenda þeim kröfur og færa þær niður. Þegar þær kröfur innheimtast betur batnar efnahagur þessara stóru banka. Það hefur gefið þeim samkeppnislegt forskot og hefur meðal annars átt sinn hlut í því að auka samþjöppunina á fjármálamarkaðinum.

Ég tel að sú staða sem upp er komin á fjármálamarkaðinum að þessu leyti sé háskaleg, sérstaklega í ljósi þess að fullkomin óvissa er um eignarhald tveggja stórra banka á viðskiptabankamarkaði þar sem þrjú fjármálafyrirtæki hafa alger yfirráð. Menn verða því að vanda sig mjög mikið við öll skref þegar verið er að breyta eignarhaldi á fjármálafyrirtækjum og það á sérstaklega við um sparisjóðina.

Ég spurði hæstv. þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, nú atvinnuvegaráðherra, Steingrím J. Sigfússon, út í þessi mál á Alþingi fyrr á þessu ári. Ég spurði hæstv. ráðherra sérstaklega um eitt. Það var með hvaða hætti áform um sölu á eignarhlut ríkisins í sparisjóðunum yrðu látin ganga fram. Með öðrum orðum, hvernig staðið yrði að sölu á því stofnfé sem ríkið og Seðlabankinn hafa eignast í sparisjóðunum. Það kemur fram, eins og allir vita, að ríkið og Seðlabankinn eiga um 90% í einstökum sparisjóðum og niður í 45%, ef ég man það rétt. Þeir eru auðvitað algerlega ráðandi. Við höfum séð að í einstökum tilvikum hafa sparisjóðir verið seldir og endað í höndum viðskiptabankanna. Það gekk að vísu til baka varðandi Sparisjóð Svarfdæla en þar mátti ekki miklu muna og ég tel að ganga verði frá því með einhverjum hætti að það gerist ekki þannig að þessir þrír viðskiptabankar, með fullri virðingu fyrir þeim, sogi til sín og innlimi meira og minna allt sparisjóðakerfið í landinu. Það væri mjög háskaleg þróun.

Ég spurði sem sagt fyrrverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um þetta og hann svaraði, með leyfi virðulegs forseta:

„Það er einfaldlega þannig að það sem ríkið óskar sér að gera í þeim efnum er að stofnfjáreigendur fái þann hlut, leysi hann til sín, bæði þeir sem fyrir eru og nýir, til að byggja á nýjan leik upp öflugt stofnfjáreigendabakland fyrir sparisjóðina.“

Þetta er út af fyrir sig jákvætt. Nú ber að vísu að slá þann varnagla að í mörgum þeim byggðum sem um er að ræða, þar sem sparisjóðirnir starfa, er kannski ekki mikið um fjármagn og getur verið erfitt fyrir menn að glíma við það að kaupa eignarhlut ríkisins. Engu að síður er þessi pólitíska yfirlýsing mikilvæg. Nú vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra og óska eftir því að fá svar í umræðunni hér á eftir: Ef til sölu á eignarhlut ríkisins í sparisjóðunum kemur, verður þá örugglega gengið út frá því og gengið þannig frá því að tryggt sé að þessir sparisjóðir verði ekki innlimaðir í annað fjármálakerfi í landinu? Verður reynt að tryggja það, t.d. í löggjöfinni sem hér er verið að fjalla um, að eignarhlutirnir í sparisjóðunum verði því aðeins seldir að stofnfjáreigendur eigi þá að minnsta kosti fyrsta leik, forkaupsréttinn, og geti leyst þann eignarhlut til sín, bæði þá sparisjóðastofnfjáreigendur sem fyrir eru eða nýir á þeim svæðum þar sem áhugi er á því að koma inn í þessa starfsemi? Þetta held ég að muni skipta mjög miklu máli og geti ráðið miklu um þróun okkar fjármálakerfis.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að hið óljósa eignarhald á þessum stóru viðskiptabönkum, Arion banka og Íslandsbanka, kallar fram ákveðna óvissu. Þess vegna er mjög mikilvægt að nákvæmlega sé gerð grein fyrir því hvert hið raunverulega eignarhald er í dag og hvers megi vænta um framtíðaráform varðandi rekstur þessara banka.