141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

145. mál
[18:32]
Horfa

Frsm. velfn. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 45/2012, um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008 og lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum, frá meiri hluta velferðarnefndar. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Áslaugu Einarsdóttur, Einar Magnússon og Hrönn Ottósdóttur frá velferðarráðuneytinu og Benedikt Benediktsson og Katrínu Hjörleifsdóttur frá Sjúkratryggingum Íslands.

Hinn 1. júní 2012 samþykkti Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar og lyfjalögum með síðari breytingum. Með lögunum er kveðið á um nýtt greiðsluþátttökukerfi í lyfjakostnaði auk þess sem gerðar voru breytingar á lyfjalögum til að skjóta styrkari lagastoðum undir starfrækslu Sjúkratrygginga Íslands á lyfjagreiðslugrunni.

Þá voru einnig gerðar breytingar á ákvæðum um lyfjagagnagrunn landlæknis til að tryggja læknum aðgang að lyfjaupplýsingum um sjúklinga sína til að geta rakið lyfjasögu þeirra og einnig til að tryggja sjúklingum aðgang að upplýsingum um sjálfa sig í lyfjagagnagrunni. Lögin öðlast gildi 1. október næstkomandi.

Með frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar er lagt til að þeim hluta laganna sem varðar nýtt greiðsluþátttökukerfi í lyfjakostnaði og lyfjagreiðslugrunn Sjúkratrygginga Íslands verði frestað til 1. janúar 2013. Önnur ákvæði laganna taki eftir sem áður gildi 1. október næstkomandi.

Fyrir nefndinni kom fram að þegar frumvarpið varð að lögum hófst vinna í velferðarráðuneytinu við undirbúning að innleiðingu nýja kerfisins og var sérstakur stýrihópur settur á laggirnar vegna málsins. Fljótlega varð þó ljóst að um nauman tíma væri að ræða fyrir svo umfangsmikla kerfisbreytingu. Tímafrekasti hlutinn er greiningar- og hönnunarvinna vegna tölvukerfa Sjúkratrygginga Íslands og prófanir á nýja kerfinu en ætla má að þær taki allt að þrjá mánuði. Þó kom fram að hægt sé að áfangaskipta vinnunni þannig að mögulegt verði að taka kerfið í notkun um næstu áramót en þá væru aðeins allra nauðsynlegustu verkþættir teknir fyrir þangað til. Þá er einnig fram undan viðamikið kynningarstarf en kynna þarf nýja kerfið og breytingar á reglugerðum sem það hefur í för með sér fyrir heilbrigðisstarfsfólki og almenningi og þá er einnig töluverð vinna fyrir höndum í apótekum landsins við að tengjast nýja greiðslugrunninum og uppfæra kerfi vegna nýja greiðsluþátttökukerfisins.

Við umfjöllun velferðarnefndar um frumvarp það er varð að lögum nr. 45/2012 var lögð til sú breyting á gildistöku frumvarpsins að henni yrði frestað til 1. október 2012, en upphafleg gildistaka var 1. janúar 2012. Í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar kom fram að gefa þyrfti nægilegt rými til að undirbúa nýtt greiðsluþátttökukerfi og að nýta þyrfti tímann vel fram að gildistöku til undirbúnings og kynningarstarfs. Meiri hluti nefndarinnar telur það miður að vinna vegna kerfisbreytingarinnar hafi ekki gengið hraðar en telur þó að mikilvægt sé að kerfisbreytingin gangi því aðeins í gegn að hið nýja kerfi verði tilbúið til notkunar. Þar sem samkomulag er um það hjá velferðarráðuneytinu og Sjúkratryggingum Íslands að taka kerfið í notkun 1. janúar og að nauðsynlegri vinnu til þess verði þá lokið leggur meiri hluti nefndarinnar til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir þetta nefndarálit rita auk þeirrar sem hér stendur Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Amal Tamimi og Árni Þór Sigurðsson.

Hæstv. forseti. Auk þessa tel ég mikilvægt að reglugerðir þær sem frumvarpinu og lögunum fylgja séu uppfærðar og þannig búið um hnútana að starfsmenn Sjúkratrygginga Íslands geti hafið kynningu á lögunum eins og þau verða 1. janúar og hvernig áætlað er að taka hið nýja kerfi í gagnið. Það er töluverð vinna, eins og hér hefur komið fram, að innleiða þetta nýja, breytta lyfjagreiðslukerfi en það er mikið í húfi fyrir alla að vinnan gangi vel og að innleiðing nýja kerfisins gangi vel fyrir sig.

Það er til mikilla hagsbóta fyrir sjúklinga að af þessum breytingum verði og eftir þeim er beðið. Því tel ég að velferðarráðuneytið verði líka að leggja sitt af mörkum þannig að það efni sem þarf til kynningar og liggur hjá ráðuneytinu verði sem fyrst tilbúið þannig að starfsmenn Sjúkratrygginga Íslands geti hafið þá kynningarvinnu sem þarf og að kynningarefni verði sem fyrst tilbúið.

Um þetta mætti hafa fleiri orð og lengri ræðu og fara frekar inn í efnið en hér er verið að fresta hluta af þeim lögum sem voru sett í lög 1. júní á þessu ári.