141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

145. mál
[18:41]
Horfa

Frsm. velfn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er alveg réttmæt ábending hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal, hér var engin eða mjög lítil umræða við framlagningu frumvarpsins. Ég tel að ástæðan hafi verið sú að nefndarmönnum, ekki bara á síðastliðnu vori heldur á fyrri stigum í vinnu nefndarinnar, hafi verið mjög vel kunnugt um það hvernig þetta nýja kerfi verður innleitt.

Það er alveg sama á hvaða tímapunkti kerfið verður innleitt, fyrsta tímabilið verður greiðslubyrði upp að ákveðnu marki hjá öllum, með þeim undantekningum sem eru þó í lögunum sem taka gildi 1. janúar næstkomandi. Það verða eftir sem áður ákveðin lyf undanþegin og kostnaðurinn mun ekki lenda á sjúklingum. En það er undantekning. Í raun og veru er alveg sama hvenær kerfið verður innleitt; það er miðað við ákveðnar dagsetningar frá því að einstaklingur byrjar að kaupa lyf, hvort sem það er í janúar eða febrúar eða hvenær sem það er og eftir það tikka tólf mánuðir. Hjá öryrkjum, öldruðum og börnum er ákveðið hámark, 44 þús. kr. og 66 þús. kr. sem á eftir að uppfæra, hjá þeim sem eru fullorðnir og frískir að því leytinu til að þeir hafa ekki örorkuskírteini. Við þessar upphæðir miðast hámarksgreiðsla og eftir það lækkar þátttakan.

Það er í rauninni alveg sama hvenær kerfið byrjar, (Forseti hringir.) ég tel að nefndarmönnum hafi verið kunnugt um það og því hafi umræðan verið lítil sem engin.