141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

145. mál
[18:45]
Horfa

Frsm. velfn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er ábending frá hv. þingmanni sem vert er að hafa í huga. Með þessari kerfisbreytingu er ekki í heildina verið að auka greiðsluþátttöku sjúklinga heldur er verið að breyta dreifingunni. Það er verið að stuðla að því að greiðsluþátttaka ríkisins sé meiri hjá þeim sem hafa þungan og mikinn lyfjakostnað en þeim sem eru tiltölulega frískir. Þannig er verið að breyta kerfinu.

Ég tek undir með hv. þingmanni að það væri mjög æskilegt að við hefðum á sama tíma getað komið þessu kerfi yfir á alla heilbrigðisþjónustu. Það verður vonandi fljótlega. Þessi frestun á gildistökunni er vegna tæknilegra örðugleika. Það er flókið að koma þessu á og því er gefinn þriggja mánaða frestur til viðbótar til að undirbúa yfirtökuna á nýja kerfinu, aðallega vegna vinnu við hugbúnað og kynningu.

Það er mín trú að þegar búið verður að slípa þetta til og reyna og kerfið farið að virka vel og menn sjá til hvaða þátta þarf að taka tillit varðandi lyfin verði auðveldara að yfirfæra kerfið á aðra heilbrigðisþjónustu með svipuðum hætti. En það er framtíðin og það er pólitíkin og um það munum við hugsanlega takast á í vetur eða á næstu þingum.