141. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er margt í máli Ríkisendurskoðunar og innleiðingar Oracle-kerfisins sem vekur áhyggjur og undrun. Okkur í Samfylkingunni er málið skylt vegna þess að skýrsluna sem hér um ræðir má rekja til fyrirspurnar sem hæstv. forsætisráðherra, þáverandi óbreyttur alþingismaður, Jóhanna Sigurðardóttir, lagði fram árið 2003. Í framhaldi af því kom fram skýrslubeiðni frá Samfylkingunni og nú virðist afrakstur þeirrar fyrirspurnar vera að koma fram í dagsljósið, níu árum síðar, vonum seinna.

Það sem vekur áhyggjur í þessu máli eru annars vegar skýrslan sjálf og hins vegar viðbrögð ríkisendurskoðanda. Viðbrögðin við uppljóstruninni, það að ætla að snúa sér til lögreglu með málið, eru áhyggjuefni. Það hvernig vísað er til almannaheilla er áhyggjuefni því að auðvitað er það leyndin sjálf og inntak skýrslunnar sem er ógnun við almannaheill en ekki það að sagt sé frá því. Það er ósamkvæmni í yfirlýsingum og afstöðu ríkisendurskoðanda nú og áður, t.d. varðandi vanhæfi eins og hér var farið yfir áðan, og ekki síst það að skýrsludrögin sjálf, ófullbúin og óhæf til birtingar eins og því er lýst af Ríkisendurskoðun, skuli liggja hjá Fjársýslunni til óformlegrar umsagnar áður en gengið er frá skýrslunni. Það vekur verulegar spurningar og áhyggjur í mínum huga.

Eftirlitshlutverk Alþingis er líka mikið umhugsunarefni í þessu því að lögum samkvæmt er Alþingi eini sanni eftirlitsaðilinn með Ríkisendurskoðun. Við hljótum að spyrja okkur núna hvaða áhöld og tæki við höfum raunverulega til að rækja það eftirlitshlutverk. (Forseti hringir.) Við þurfum augljóslega að bæta úr því eins og sakir standa og (Forseti hringir.) það hlýtur að vera sjálfsögð krafa, eins og sakir standa, að við fáum þessa skýrslu núna fullbúna á (Forseti hringir.) skömmum tíma til að Alþingi geti fjallað um hana með málefnalegum hætti og brugðist við í framhaldinu.