141. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vil fjalla hér um í tengslum við nýlega uppljóstrun um skýrslu Ríkisendurskoðunar um mannauðs- og fjárhaldskerfi ríkisins og þarf að huga að sérstaklega, þ.e. útboðið sjálft, framúrkeyrslan og þeir fjármunir sem um ræðir. Svo er auðvitað staða uppljóstrara sem hefur komist í hámæli í þessari umræðu allri, rannsókn Ríkisendurskoðunar og svo kerfið sjálft sem var keypt og tekið í notkun, öryggi þess og gæði. Ég hóf í morgun undirbúning að tillögugerð um sjálfstæða rannsókn þessa máls en það veltur auðvitað á því hvernig tekið verður á því innan Ríkisendurskoðunar hversu langt sú tillögugerð nær og að sjálfsögðu ákvörðunum í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem þarf að fjalla frekar um þetta mál.

Ég vil líka geta þess að frá síðasta vetri hef ég unnið ásamt sjálfstæðri rannsóknastofnun við Háskólann í Melbourne í Ástralíu að tillögu að lögum um vernd uppljóstrara sem byggir á rannsóknum á því hvernig þeirri lagasetningu er háttað víðs vegar um heiminn og í ólíkum löndum. Það er gríðarlega mikilvægt að menn séu með sérstaklega tiltekið ákvæði í lögum um vernd þeirra. Í fjölmiðlalögum sem við samþykktum á síðasta ári, 25. gr. ef ég man rétt, var fjallað um vernd heimildarmanna, sem er mikilvægt ákvæði, en það þarf líka sérstaklega að geta þess og taka til þess að í kerfinu þarf að gera ráð fyrir uppljóstrurum sem á ensku hafa verið kallaðir „whistle blowers“. Það er eðlilegt að starfsmenn opinberra stofnana geri grein fyrir því þegar eitthvað óeðlilegt á sér stað innan stofnunar. (Forseti hringir.) Það þarf að tryggja réttarstöðu þeirra í lögum. (Gripið fram í.)