141. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil blanda mér í umræðuna um þessi drög að skýrslu frá Ríkisendurskoðun um Oracle-fjárhags- og mannauðskerfið. Þessi drög draga upp svarta mynd af þeim vinnubrögðum sem tíðkuðust við fjárlagagerðina á þessum árum og hvernig Alþingi var í raun og veru markvisst haldið í myrkri um raunverulegt umfang þessa verks. Ef marka má þessi skýrsludrög og reyndar svar fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur virðist sem Alþingi hafi í raun verið blekkt í vinnu við fjárlögin 2001 í því skyni að villa um fyrir væntanlegum þátttakendum í útboði um umrætt hugbúnaðarkerfi.

Þetta mál er mjög margslungið og þáttur Ríkisendurskoðunar í því afar viðkvæmur og alvarlegur í ljósi þess mikla trúnaðarsambands sem þarf að vera milli Alþingis og Ríkisendurskoðunar í því að tryggja að Alþingi hafi þarna sterkt tæki til að rækja eftirlitshlutverk sitt. Það er algjörlega óskiljanlegt í ljósi þeirra alvarlegu ávirðinga um framgöngu Fjársýslunnar og fjármálaráðuneytisins sem koma fram í skýrsludrögunum að skýrslan sé ekki enn komin fram tæpum áratug síðar. Vinnan við hana hófst árið 2003. Það er með hreinum ólíkindum að þær ávirðingar sem þarna koma fram gefi stofnuninni ekki tilefni til flöggunar gagnvart þinginu því að þetta er mikilvægasta tækið sem Alþingi hefur til þess að sinna eftirlitshlutverki sínu.

Ég tek sömuleiðis undir með hv. þm. Róberti Marshall og vara við því að menn falli í þá gryfju að fara að skjóta sendiboðann í þessu máli. Þeir sendiboðar gæta ríkra almannahagsmuna í að tryggja að mikilvægar upplýsingar um meðferð opinbers fjár komist til almennings. (Forseti hringir.) Við þurfum þvert á móti að tryggja að vernd heimildarmanna og vernd uppljóstrara verði enn þá ríkari í framtíðinni (Forseti hringir.) en núna er. (Gripið fram í: Akkúrat.)