141. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi vekja athygli á stöðu mála í milliríkjadeilunni við Norðmenn og Evrópusambandið vegna makrílveiðanna. Þau merku tíðindi áttu sér stað í gær á fundi ráðherraráðs um refsireglur vegna markrílveiða að hvorki Danir né Þjóðverjar treystu sér til að styðja tillögu um almennar refsiaðgerðir vegna deilunnar. Aukinheldur skiluðu Danir inn ítarlegri bókun þar sem þeir áskilja sér rétt til að vísa aðgerðum sem snúa að Færeyjum, og þær gilda að sjálfsögðu um Ísland líka, til Evrópudómstólsins komi til þess að þeim verði beitt í þessari deilu.

Þetta eru mikilsverð tíðindi og mikið vopn í hendur Íslendinga og Færeyinga í þeirri hörðu milliríkjadeilu sem nú er uppi við Norðmenn og Evrópusambandið. Núna er að sjálfsögðu eitthvert mikilvægasta og stærsta verkefni stjórnvalda að leysa þá deilu enda skipta hagsmunirnir milljarðatugum og miklu meiri fjármunum lengra inn í framtíðina litið. Auðvitað er mjög brýnt að Norðmenn og Evrópusambandið slái af óraunhæfum og fráleitum kröfum sínum og mæti réttmætum kröfum Íslendinga og Færeyinga í þessu máli.

Reglurnar sem voru samþykktar, og Danir og Þjóðverjar sátu hjá og Danir bókuðu sérstaklega við þær, eru vissulega almenns eðlis og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins á eftir að ákveða hvort og með hvaða hætti þeim verður nokkurn tímann beitt. Það er talið að einu heimildirnar sem þeir geti beitt án þess að brjóta í bága við alþjóðlegar skuldbindingar, þar á meðal viðskiptareglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sé að beita löndunarbanni á makrílveiðiskip, lengra sé ekki hægt að ganga. Það er hins vegar mjög mikilvægt að Danir hafi lagt fram þessa bókun og slær mjög á samstöðu þjóðanna sem við eigum í þessari deilu við um að beita Íslendinga hörðum refsiaðgerðum. Þetta bætir mjög stöðu (Forseti hringir.) Íslendinga og Færeyinga í þessari hörðu og mikilvægu milliríkjadeilu.