141. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum stöðu Ríkisendurskoðunar og innleiðingu á fjárhagskerfi fyrir ríkið. Þáttur þáverandi hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur hefur verið ræddur hér en vert er að hafa líka í huga að árið 2003 lögðu þingmenn Samfylkingar fram frumvarp þar sem fjallað var um vernd til handa starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga vegna upplýsingagjafar í þágu almennings. Þetta mál snertir það beint. Ég tel hins vegar að með svörunum um að þann þátt eigi að skoða sérstaklega sé verið að drepa málinu á dreif. Í raun og veru snýst þetta um eftirfarandi:

Hvernig var staðið að útboðinu og þarfagreiningu í framhaldi af því? Hvernig var staðið að innleiðingu og gæðum kerfisins sjálfs? Hver er ábyrgð fjármálaráðuneytisins og fjárveitingavaldsins frá árinu 2001? Hver er skýringin á vinnulagi Ríkisendurskoðunar frá því að fyrirspurn barst úr Alþingi? Hver er staða eftirlitshlutverks Alþingis gagnvart stofnuninni sjálfri?

Ég kalla eftir því, virðulegi forseti, að tvennt verði gert, í fyrsta lagi að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis kalli hið fyrsta eftir skýrslunni sem er til í drögum og að málið verði tekið fyrir hvað snertir efnisþætti málsins, innleiðinguna, fjárveitingavaldið o.s.frv. á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Hitt sem þarf einnig að skoða á vettvangi sömu nefndar er: Hver er staða Ríkisendurskoðunar? Af hverju stóð Ríkisendurskoðun svona að málum? Hver er trúverðugleiki stofnunarinnar, mundi ég vilja sagt hafa, og hver er staða hennar heilt yfir?

Svo um leið: Hver eiga samskipti stofnunarinnar og Alþingis að vera í framhaldinu?

Það eru tvö atriði sem þarf að fara í hið allra fyrsta, klára skýrsluna og ljúka efnisskoðun á málinu og skoða svo í heild samskipti og stöðu Ríkisendurskoðunar.