141. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir sagði að það væri dýrt að vera fátækur. Það er alveg rétt og verið er að búa til áætlun sem síðan á að fara að skoða, það kom fram hjá hæstv. velferðarráðherra í umræðunni fyrr í vikunni. Áætlunin er til, það er til bráðalisti hjá Landspítalanum sem er upp á um 1 milljarð. Það er bráðalisti, tæki sem þarf að kaupa strax til að hættuástand skapist ekki. Síðan er farið yfir í hefðbundna gagnrýni og sagt að ég sé á móti öllu grænu af því að ég taldi upp þætti í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar og fjallaði um forgangsröðun hennar, þessarar norrænu velferðarstjórnar, í fjárfestingu á næstu þremur árum. Ég taldi upp grænan fjárfestingarsjóð upp á 1 milljarð og grænkun fyrirtækja, sem ég hef ekki fengið skýringu á hvað þýðir, upp á 500 milljónir og netríkið Ísland, 200 milljónir. Hv. þingmaður taldi þetta vera atvinnuskapandi fjárfestingar. Það er líka hægt að tala um Hús íslenskra fræða upp á vel á annan milljarð, það er hægt að nefna fjölmörg verkefni í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar fyrir næstu þrjú árin sem ég vil flokka mörg hver sem gæluverkefni. (Gripið fram í.) Ég er ekki að gera lítið úr þessum verkefnum en þau eru gæluverkefni.

Ég spurði hvort hér væri forgangsraðað rétt og hvort hv. þingmaður væri sammála forgangsröðuninni. Já, það er ekki hægt að skilja annað en að þingmenn ríkisstjórnarflokkanna telji þetta vera rétta forgangsröðun (Forseti hringir.) á fjármunum ríkisins. Ég taldi upp í ræðu minni fyrr í vikunni bara (Forseti hringir.) fjárfestingar í liði sem allir mega bíða við erfiðar aðstæður, upp á 4,4 milljarða, (Forseti hringir.) 4.400 millj. kr. Hér erum við að tala um að setja þurfi inn (Forseti hringir.) 2–3 milljarða á næstu tveimur árum til að sæmilega gott öryggi geti verið á helstu heilbrigðisstofnun landsins.