141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

145. mál
[15:40]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að við náum að afgreiða þetta lyfjafrumvarp og frestunina á því til 1. janúar. Um leið þakka ég þingheimi fyrir að hafa tekið afar vel í þá málaleitan að seinka gildistöku, einfaldlega vegna þess að það var óhjákvæmilegt. Allir flokkar hafa lagst á eitt um að láta málið ganga fram með þeim hætti sem hér er gert og ber að þakka það.

Ég vil aðeins taka það fram, af því að hér hefur komið fram í atkvæðagreiðslu, sem rétt er, að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að í upphafi þurfi menn að greiða meira en áður, þ.e. borga 100% upp að ákveðnu marki og síðan minna í framhaldinu, að það er einmitt hluti af þeim undirbúningi og kynningu sem þarf að eiga sér stað, að finna lausnir á því. Þegar eru komnar fram mjög brúklegar tillögur til að tryggja að fólk lendi ekki í vandræðum með innleiðinguna hvað þetta varðar.