141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:56]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og mikilvæga ábendingu. Hér er um að ræða áætlun um vernd og nýtingu þannig að þær hugmyndir sem falla í biðflokk falla ekki í eins konar virkjunarflokk heldur í þann flokk þar sem talið er að þurfi frekari rannsókna við. Við hv. þingmaður getum verið sammála um að hér megi vernda mun meira en bæði er lagt til í þessari þingsályktunartillögu og yfirleitt í samfélagslegri umræðu. Það er samt ekki viðfangsefni mitt hér heldur að mæla fyrir tillögu til þingsályktunar á grundvelli þeirrar vinnu sem unnin hefur verið. Ég minni hv. þingmann á að náttúruverndarlög eru enn í gildi og friðlýsingar fara alla jafna fram á grundvelli þeirra þannig að lög um vernd og orkunýtingu landsvæða eru ekki einu lögin sem horft er til þegar farið er í friðlýsingarferli, heldur er þarna fyrst og fremst verið að vinna samkvæmt fyrir fram ákveðnum ferlum.

Mér finnst mikilvægt í þessari umræðu að við virðum þá ferla. Ég hef lagt mitt af mörkum til þess. Af þeim ástæðum eru einu breytingarnar sem við gerum frá tillögu formanna faghópanna breytingar sem varða það að færa kosti í biðflokk til frekari skoðunar en enga kosti frá þeirri tillögu í endanlegan flokk, hvorki til nýtingar né verndar.