141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er örugglega mikilvægt að víðernin eigi sér málsvara en þeir sem vilja byggja upp landið og nýta auðlindir okkar til að byggja það upp þurfa líka að eiga málsvara. Þeir eru sem betur fer margir á þingi.

Fyrst langar mig að segja að það var sorglegt að mínu viti að heyra ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar áðan þar sem hann þverskallast enn og aftur við að bera hagsmuni síns heimahéraðs, hagsmuni Skagfirðinga, fyrir brjósti þegar hann talar gegn því að nýta fallvötnin í Skagafirði. Það er sorglegt að heyra þetta.

Mig langar hins vegar að spyrja hæstv. ráðherra hvort ráðherrann hafi ekki áhyggjur af því að þau vinnubrögð sem viðhöfð voru við þessa rammaáætlun, þ.e. þegar ráðherrarnir settust niður með einhverju góðu fólki og fóru að krukka í þetta, rýri trúverðugleika þeirrar áætlunar sem hér er lögð fram. Það virkar að minnsta kosti þannig á okkur sem ekki komum að þessari vinnu því að enn og aftur var ekki haft neitt samráð við þingið þegar að þessu stigi var komið, stjórnarandstöðuna þá, best að taka það fram. Mér finnst eins og trúverðugleikinn sé farinn úr þessari áætlun.

Það er sorglegt því að tilraunin var gerð og farið af stað fyrir allmörgum árum til að reyna að ná einhverri sátt. Kannski var það bjartsýni að reyna að ná sátt um þetta mál en það var farið af stað í það. Hefur ráðherrann ekki áhyggjur af því að trúverðugleiki og traust á þessu sé fyrir bí?

Annað sem ég vil koma hér á framfæri er að ég reikna með að hæstv. ráðherra hafi eitthvað mismælt sig því að ég held að það sé alveg klárt að samkvæmt þingsköpum eigi þessi áætlun að fara til atvinnuveganefndar. Ég óska eftir því við hæstv. forseta að hann úrskurði samkvæmt þingsköpum að svo sé og óska eftir því að málið fari þangað. Það var klárlega ljóst að þegar þingsköpum var breytt 2011, minnir mig, ég var einmitt í þeirri nefnd ásamt fleirum, var ætlunin að þessi málefni væru á vettvangi þeirrar nefndar. Ég hugsa að ráðherrann hafi bara mismælt sig (Forseti hringir.) áðan.