141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:10]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Byrjum á umræðunni um trúverðugleikann, í ákvæðinu til bráðabirgða í núverandi lögum er mjög skýrt kveðið á um það hvaða feril á að hafa uppi við þessa vinnu. Verkefnisstjórnin skilar til ráðherranna og þar er ekki að finna flokkunina, eins og ég gat um áðan, og í framhaldi af því var farin sú leið með formanni verkefnisstjórnar, formönnum faghópanna fjögurra og fulltrúa hvors ráðuneytis um sig; lögfræðingum frá báðum ráðuneytum, að koma tillögum verkefnisstjórnarinnar í þingtækan búning í formi þingsályktunartillögu.

Þessi myndræna lýsing hv. þingmanns á ráðherrunum tveimur sem setjast niður með einhverju góðu fólki er úr einhverjum öðrum reynsluheimi, kannski hv. þingmanns í afstöðu hans til þess hvernig fólk ræður ráðum sínum. Það var ekki gert þannig og ég hef engar áhyggjur af trúverðugleikanum nema að því er varðar orðfæri af því tagi sem þar kom fram.

Mér finnst mikilvægt að við höldum því til haga að hér eru 67 kostir til skoðunar. Í raun og veru leggjum við til breytingar á aðeins sex kostum af þeim 67. Einhverjum þætti býsna gott að breytingar hefðu ekki verið meiri en þó í samráði við almenning. Það er það sem Árósasamningurinn setur okkur fyrir og raunar líka lögin sjálf, að okkur beri að hafa það samráð. Það kann að virka óvenjulegt fyrir einhverja.

Varðandi það síðan hvert ég óskaði eftir að málið færi og hvar unnið gerði ég tillögu um að það færi til umhverfis- og samgöngunefndar og mismælti mig ekki í þeim efnum, enda stafar málið frá mínu ráðuneyti. Það er eðlilegt að sú nefnd fari með málið en (Forseti hringir.) þá væntanlega í góðu samstarfi við atvinnuveganefnd rétt eins og samstarf þessara tveggja nefnda var áberandi við vinnslu málsins á síðasta (Forseti hringir.) þingi.