141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að þegar þingsköp eru skoðuð sem og greinargerð sem fylgdi með frumvarpinu þegar lögunum var breytt og þær umræður sem fóru fram í þingsal að þetta mál á heima hjá atvinnuveganefnd. Hæstv. forseti mun að sjálfsögðu úrskurða um það eða setja á einhvers konar atkvæðagreiðslu.

Ég frábið mér hins vegar að hæstv. ráðherra tali niðrandi til þingmanna eins og hæstv. ráðherra gerir gjarnan í þessum ræðustól. Það er mjög sorglegt að ráðherrann skuli tala eins og þingmenn búi í einhverjum sérstökum reynsluheimi eða séu haldnir annarlegum hvötum. Ég vona að ég falli ekki í sömu gryfju og hæstv. ráðherra með að tala niður til ráðherrans en það er sorglegt þegar svoleiðis er, herra forseti.

Ef ég man rétt, ég er ekki með þetta fyrir framan mig, stendur í þessum lögum um verndar- og nýtingaráætlun að ráðherra geti breytt því. Ég spyr ráðherra: Hvers vegna voru ekki tillögurnar eins og þær komu frá verkefnisstjórninni settar óbreyttar í tillögubúning?