141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:25]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hef tvær spurningar til hv. þingmanns sem mælir hér fyrst sjálfstæðismanna.

Önnur er þessi: Er afstaða Sjálfstæðisflokksins núna sú að leggja til að tillögudrögin eins og þau komu frá verkefnishópnum, þ.e. frá faghópaformönnunum fjórum og verkefnisstjóranum, séu samþykkt, þ.e. þessi tillaga frá ráðherranum, og að kostirnir á Þjórsársvæðinu og Hágöngu- og Skrokköldusvæðinu séu sumsé í samræmi við þá tillögu? Er það afstaða Sjálfstæðisflokksins? Það er gott að fá að vita það vegna þess að þá vitum við hvað við erum að takast á um, a.m.k. Sjálfstæðisflokkurinn og þeir sem styðja þessa tillögu. Eða er það eitthvað annað?

Í öðru lagi, vekur þessi áhugi þingmannsins á þeim teravattstundum sem hugsanlega mætti fá út úr virkjunum á friðlýstum svæðum spurninguna um hvaða friðlýstu svæði það eru sem hv. þingmaður vill hafa virkjanir á. Er til listi um það? Eru til tillögur um það? Koma þær fram í þessari umræðu? Hvað er það sem þingmaðurinn á við þegar hún vill hugsanlegar virkjanir á friðlýstum svæðum inn í þessar tölur? Friðlýst svæði eru friðlýst vegna þess að þar þarf að gæta sérstakrar náttúruverndar sem í ákaflega fáum tilvikum fer saman við þær virkjanir sem mætti hugsanlega setja þar upp.