141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:27]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla fyrst að taka teravattstundirnar. Ég tel einfaldlega rétt að þetta komi fram vegna þess að ráðherrann fór í ræðu sinni yfir samanburð á því hversu mikið væri í hverjum flokki. Til hliðsjónar nefndi hæstv. ráðherra svo tölu um það hve mikið væri búið að virkja. Til þess að við áttum okkur á heildinni, sem var til skoðunar hjá verkefnisstjórn, tel ég rétt að þessi tala komi fram vegna þess að hún er til.

Það sem ég vil, hæstv. forseti, í þessu máli kemur fram í þingskjali 3 sem lagt hefur verið fram á Alþingi og ég hvet hv. þingmann til að kynna sér. Það er einfaldlega að faglegum vinnubrögðum verði fylgt allt til enda og það verði gert þannig að verkefnisstjórn verði kölluð saman og hún látin flokka kosti. Ég vil að verkefnisstjórnin flokki, en ekki ráðherrann og starfsmenn ráðuneytisins í samráði við einhverja einstaklinga eða eingöngu ráðherrann sjálfur. Ég tel það rétt og að þannig getum við á sem bestan hátt fengið faglega niðurstöðu allt til enda. Síðan kemur málið að sjálfsögðu inn í þingið til umræðu og til þinglegrar meðferðar. Hv. þingmenn geta þá haft á því skoðanir hvar einstakir virkjunarkostir eru.

Ég tók einstaka virkjunarkosti sem dæmi áðan í ræðu minni. Ég hafði eingöngu 10 mínútur og náði því ekki að fara yfir allt það sem mig langaði að ræða við ráðherrann, en tók sem dæmi kosti sem ráðherrann sá greinilega ástæðu til að færa til út frá hinni upphaflegu tillögu sem barst og ráðherrann kom með. (Gripið fram í.) — Ég svaraði því hér áðan hvers vegna ég taldi rétt að talan varðandi hina friðlýstu kosti kæmi fram. Það liggur fyrir að það eru margvíslegar ástæður fyrir því að hinir og þessir kostir eru á friðlýstum svæðum. Það eru ólíkar ástæður fyrir því hvernig friðlýsing kom til o.s.frv. Ég tel að í flestöllum tilvikum, sem hv. þingmaður er væntanlega að velta fyrir sér, að ekkert sé að því og hinir friðlýstu kostir muni ekkert endilega fara í annan flokk (Forseti hringir.) en verndarflokk. Ég tel hins vegar rétt að aðferðafræðin sé sú sama og hjá öðrum virkjunarkostum sem voru til umræðu (Forseti hringir.) og til meðferðar hjá verkefnisstjórn.