141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:30]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég læt ekki af því að finnast það eðlileg spurning þegar þess er krafist að teravattstundir á friðlýstum svæðum séu upptaldar, að spyrja hv. þingmann að því hvaða svæði og hvaða kosti hún hafi í huga. Auðvitað eru til friðlýst svæði sem hugsanlega væri hægt að hafa á virkjanir þannig að það skemmi ekki náttúruna afar mikið, það er ljóst, af því að við erum ekki búin að koma þessu í gott lag hjá okkur. En hvaða kostir eru það? Er það Gullfoss? Er það Geysir? Svo nefndir séu tveir kostir í kjördæmi hv. þingmanns. Hvað er hv. þingmaður að meina?

Að hinu leytinu er merkilegt að heyra að ætlun Sjálfstæðisflokksins sé að hafna þingsályktunartillögunni um rammaáætlun í heild og setja ferlið af stað upp á nýtt (JónG: Nei.) og dæma þá um að röðunin sé vissulega fagleg hjá verkefnishópnum eins og hún kemur fram en tillaga faghóps formannanna og verkefnisstjórans sé eitthvað annað. Þar komi hinir skítugu, pólitísku puttar.

Forseti. Ef ég má varpa fram kenningu um þetta þá er hún sú að annars vegar höfum við hv. þm. Jón Gunnarsson með sínar meiningar og viðhorf, t.d. um Norðlingaölduveitu. Það er alveg klárt að hann er í þeim hópi sem vill virkja nánast allt sem rennur, nánast allt sem hægt er. Hins vegar séu menn sem eru kannski ekki alveg jafnæstir í að eyðileggja náttúru Íslands eins og skot og vita meðal annars að náttúra Íslands, fyrir utan hennar eigið gildi, gefur okkur mikinn auð á hverju ári með því atvinnulífi sem á henni þrífst, öðru en virkjunum.

Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn sé að opinbera hér klofning í eigin röðum og reyna að skjóta honum inn í framtíðina með frekar lúalegum hætti. (JónG: Af hverju styður þú ....)