141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:32]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var öflug samsæriskenning sem ég botnaði nú varla í. Ég vonast til þess ef einhverjir aðrir eru að fara í andsvar við mig að þeir beini orðum sínum frekar til mín en annarra hv. þingmanna vegna þess að ég get ekki svarað fyrir neinn annan en sjálfa mig. Ég tel þó rétt á að benda hv. þingmanni á að lesa frumvarp okkar til laga um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, sem verður til umræðu á morgun og hvet hv. þingmann til að blanda sér í umræðuna þá.

Þar kemur fram að verkefnisstjórnin á að skila af sér fyrir áramót og á grunni flokkunarinnar sem kemur úr þeirri vinnu leggi hæstv. ráðherra eigi síðar en 1. febrúar 2013 tillögur verkefnisstjórnarinnar fram óbreyttar á Alþingi. Það er sá ferill sem við sjáum fyrir okkur. Þetta á ekki að taka lengri tíma en svo vegna þess að þarna er fólk sem hefur áður verið í þessari vinnu. (MÁ: Hvað á Alþingi að gera?)

Þá kemur málið að sjálfsögðu til kasta Alþingis. Og ef við ætlum að standa við þau stóru orð að telja okkur geta virt fagleg vinnubrögð hlakka ég bara til þess að taka málið inn í þingið og sjá hvaða hv. þingmenn munu birtast hér sem ætla sér að hafa pólitísk afskipti af þeirri flokkun sem kemur út úr vinnu verkefnisstjórnar.

Ég hlakka til þess verkefnis (Gripið fram í.) og ég geri ráð fyrir því að allir þeir hv. þingmenn sem hafa fagnað því í gegnum tíðina að unnið sé að rammaáætlun á faglegan hátt muni koma með því hugarfari að þeirri vinnu. Aðrir munu væntanlega sýna sitt rétta andlit í þeirri vinnu.