141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:36]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að í fáum málum ef nokkrum hafi verið haft jafnmikið samráð og ferlið verið jafnopið í öllum vinnubrögðum eins og var af hálfu verkefnisstjórnar við gerð rammaáætlunar sem leit dagsins ljós í fyrra. Ég tel að það sé erfitt að finna dæmi þess að áætlun hafi áður verið unnin á jafnopinn hátt og í jafnnánu samráði við alla þá sem vildu hafa skoðanir á málinu.

Ferlið var opið allt til enda. Það voru haldnir samráðs- og kynningarfundir um allt land og það var farið yfir þær athugasemdir sem bárust verkefnisstjórninni og brugðist við þeim. Þannig var þetta.

Varðandi það hvort ég beri ekki hag íbúa Suðurlands fyrir brjósti þá er það auðvitað þannig, hæstv. forseti, að ekki nokkur maður, hvorki í þessum sal né úti í samfélaginu né hjá orkufyrirtækjunum, vill fara þannig fram að ógni heilsu íbúa, til dæmis í Hveragerði. Það er ekki þannig. Það hefur ekki nokkur maður þann ásetning að byggja virkjanir sem ógna heilsu manna. Skárra væri það nú. Það er einfaldlega ekki þannig og það er rangt að halda því fram að svo sé.

Varðandi það hvort ekki eigi að hlusta á slík sjónarmið þá er hlustað á slík sjónarmið. Það að kostur lendi í nýtingarflokki í rammaáætlun hæstv. ráðherra þýðir ekki að hægt sé að hlaupa til og virkja þar á morgun. (Gripið fram í: Heyr.) Kosturinn þarf, eins og alþjóð veit og hv. þingmanni er vel kunnugt um, að fara í gegnum alls kyns ferli áður en svo verður gert. Þar geta menn komið athugasemdum sínum á framfæri. Ég fullyrði, herra forseti, að það mun ekki verða farið af stað í virkjanir ef ljóst er að ekki er búið að fyrirbyggja að tjón verði á heilsu manna af völdum þeirra virkjana. (Gripið fram í: Heyr.)