141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:41]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á faglega matinu og svæðunum í grennd við höfuðborgarsvæðið. Þetta er atriði sem var skoðað hjá verkefnisstjórninni og kom inn í matið. Röðunin ber þess þá væntanlega merki að horft hafi verið til þeirra sjónarmiða. Þetta var einn af þeim þáttum sem horft var til.

Ég held að við séum öll sammála um að fara beri fram af varfærni. Það ætlar enginn að æða fram og virkja allt hægri, vinstri á landinu (MÁ: Jón Gunnarsson.) án þess að fara eftir lögum sem gilda um það, svo sem um umhverfismat, framkvæmdaleyfi o.s.frv. Við höfum innbyggðar í löggjöf okkar alls kyns girðingar utan um þetta kerfi. Það er ekki þannig, verði tillaga hæstv. ráðherra samþykkt hér á eftir eða á morgun, að við getum farið út og virkjað allt sem er í nýtingarflokki. Auðvitað er það ekki þannig. En þá hafa þessir kostir þá stöðu að hægt er að halda áfram og ef þeir kostir komast í gegnum allar þær girðingar sem eftir eru á leiðinni verða einhverjir þeirra væntanlega nýttir í framtíðinni. Þannig er þetta.

Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér frumvarp til laga um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun sem hér liggur frammi á þskj. 3 og verður til umræðu á morgun. Það er tillaga okkar sjálfstæðismanna um hvernig eigi að breyta meðferðinni á setningu rammaáætlunar. Þar er tekið til þess að verkefnisstjórnin eigi að flokka og tillaga verkefnisstjórnar, sem hefur, nota bene, látið fara fram umfangsmikið samráð í allri sinni vinnu í gegnum allt ferlið um þá flokkun, verði lögð fram óbreytt á Alþingi í formi þingsályktunartillögu. Það verði hin eiginlega rammaáætlun sem við öll ætlum okkur síðan að virða og vinna eftir.