141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:54]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Ég tel að hún hafi verið fagleg. Ég tel að faghóparnir fjórir hafi skilað eins góðri vinnu og þeir gátu. Ég geri mér grein fyrir því að til dæmis faghópi 3 hafði verið sett fyrir verkefni sem hann réð nánast ekki við, það að meta þjóðhagslega arðsemi o.s.frv., og það hefur verið mjög gagnrýnt. Líka hefur komið fram gagnrýni á faghóp 1, náttúrufaghópinn, fyrir að veita jarðminjum ekki nægilega athygli. Ég tel að röðunin standist faglegar kröfur.

Já, það var röðunin.

Það sem síðan kemur eru ákvarðanir sem ekki er hægt að mæla á jafnfaglegan kvarða. Ég minni jafnframt á að stjórnmál eru líka fag, eru líka um að finna hið rétta jafnvægi milli hagsmuna og viðhorfa í samfélaginu. Ég tel hins vegar að ef farið yrði að tillögu Sjálfstæðisflokksins, og mín góða vinkona Svanfríður Jónasdóttir annars vegar og Unnur Brá Konráðsdóttir hins vegar væru komnar í þá sérkennilegu stöðu að greiða atkvæði eða taka þátt í umræðu um endanlega kosti nánast fyrir hönd ráðherrans og nánast fyrir hönd þingsins eins og hv. þingmaður segir væri það mjög skrýtið. Þá þyrfti annaðhvort að skipa inn í þessa verkefnisstjórn öllum stjórnmálaöflum á Íslandi í samræmi við atkvæðahlutfall þeirra, fylgi þeirra, eða að kjósa verkefnisstjórnina almennri kosningu. Það væri kannski ágætt, en þá væri bara komið annað Alþingi, þá væri búið að stofna nýtt Alþingi í staðinn fyrir það sem við sitjum á.