141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir ágæta ræðu.

Ég var mjög hlynntur því að fara út í þessa rammaáætlun. Ég var mjög hlynntur því að reyna að fá faglegt mat í þessari endalausu deilu þeirra sem vilja virkja — og ég er í þeirra hópi, hef í reynd, herra forseti, grátið hvert tonn af vatni sem hefur farið óbeislað til sjávar vegna þess að það kemur aldrei aftur og nýtist ekki þjóðinni. En svo eru aðrir sem vilja ekki virkja hvað sem það kostar. Þetta eru miklar deilur og ég batt vonir við að rammaáætlun mundi leysa þær deilur á faglegan hátt.

Nú hefur hæstv. ríkisstjórn og hæstv. umhverfisráðherra — hún er ekki reyndar við — vikið frá rammaáætlun, vikið frá þessu faglega mati.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Getur ekki verið að ef virkjunarsinnar ná aftur meiri hluta á Alþingi, sem gæti gerst, þá séu verndunarsinnar verr settir en ella? Vegna þess að þeir munu þá hafa fordæmi fyrir því, komið er fordæmi fyrir því, að víkja frá þessari faglegu áætlun. Það er komið fordæmi fyrir því. Hæstv. ríkisstjórn og hv. þingmaður sem styður hana er búinn að veita fordæmi fyrir því að víkja frá þessari faglegu áætlun. Eru þeir sem eru andsnúnir virkjunum þá ekki í rauninni að tapa? Vegna þess að þegar búið er að virkja eina á verður hún ekki óvirkjuð aftur.