141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:12]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmanni verður nú ekki að ósk sinni í þessum efnum. Að sjálfsögðu er sú vinna sem hér er lögð fram mikið og gott skref fram á við einmitt í þeim faglegu vinnubrögðum (Gripið fram í.) sem hv. þingmaður talar um.

Hins vegar skil ég alveg trúarhita hv. þingmanns í virkjunarmálum alveg eins og í einkavæðingarmálum, þar fylgist það að, það er bara svo. Það er nokkuð góður veðurviti hér á Alþingi þegar hv. þm. Pétur Blöndal kemur hingað í ræðustól og rekur sín áhugamál hvað þetta varðar.

Ég ítreka að pólitískar skurðarlínur voru á milli Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma annars vegar og hins vegar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs varðandi virkjunargræðgi Sjálfstæðisflokksins. Það er alveg hárrétt. Það voru mjög öflugar línur. Þess vegna verð ég að segja að við sem tókum þátt í hinni miklu baráttu á Alþingi á sínum tíma gegn Eyjabakkavirkjun, gegn Kárahnjúkavirkjun, við tókum líka slaginn um Villinganesvirkjun og það að stífla jökulsárnar í Skagafirði, vildum sjá mjög sterk, öflug og stór skref stigin í að vernda eigin rétt náttúrunnar hvað þetta varðar. Það er alveg hárrétt. Ég hefði viljað sjá þau stærri.

Hins vegar veit ég alveg að um þetta er ágreiningur. Ég veit að heima í Skagafirði er ágreiningur. Sumir vilja virkja jökulsárnar en ég held að meiri hluti Skagfirðinga vilji það ekki. Ég (Forseti hringir.) er þeirrar skoðunar að við eigum einmitt að standa vörð um þessi náttúruvætti okkar. Og fyrir jökulsárnar per se er (Forseti hringir.) það mikilvægara, þær eru eins og lungu lands og sjávar með sínum framburði til sjávarins. Það á því að fara mjög varlega í að virkja (Forseti hringir.) jökulsárnar — og alls ekki, herra forseti.