141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:14]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér sennilega eitthvert það mikilvægasta mál sem þingið fjallar um. Það er ekki víst að allir geri sér grein fyrir því úti í samfélaginu hversu mikilvægt það er að fá þá niðurstöðu í málið sem verður til þess að uppbyggingu og verðmætasköpun í samfélagi okkar verður haldið áfram. Markmið þeirra stjórnmálaflokka með því að setja af stað vinnu við rammaáætlun, þar á meðal Sjálfstæðisflokksins sem setti málið af stað, var að reyna að leysa stórt ágreiningsmál, reyna að ná málamiðlun í samfélaginu um það sem verið hefur stórt ágreiningsmál, ekki bara á síðustu árum heldur í 50 ár eða allt frá því að farið var að nota orðið stóriðja í íslensku máli.

Hv. þm. Jón Bjarnason minnist á að skörun hafi verið á milli flokkanna út af Kárahnjúkavirkjun og segja má að skörunin varðandi stóriðju hafi verið í 50 ár. Sem betur fer fyrir þessa þjóð hafa þau sjónarmið nú orðið ofan á að fara skynsamlega leið nýtingar náttúruauðlinda og orkuauðlinda okkar til að byggja hér upp öflugt atvinnulíf, öfluga verðmætasköpun, til að byggja upp mannvænlegt samfélag.

Búið er að fara yfir það hér hvernig verkefnisstjórnin var skipuð 2007, hvernig aukin áhersla á náttúruvernd kom þá inn í vinnuna og eins hefur verið minnst á þá faghópa sem störfuðu með verkefnisstjórninni. Ferlið var mjög opið og gagnsætt, alveg til fyrirmyndar. Haldnir voru yfir 30 samráðsfundir víða um land af hálfu verkefnisstjórnarinnar þar sem leitað var eftir sjónarmiðum almennings, sveitarstjórna og fyrirtækja. Þá var opin heimasíða allan tímann þar sem fólk gat komið á framfæri athugasemdum sínum og skilaboðum til verkefnisstjórnarinnar. Það var allt skoðað og ferlið var mjög opið og gott. Það var alveg til fyrirmyndar, enda hafa menn verið sammála um að faglega hafi verið unnið að málinu.

Upphaflega hugmyndin var sú að verkefnisstjórnin mundi síðan skipta virkjunarkostunum niður í flokka, niður í nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Frá því var horfið og síðan var skipaður hópur af hálfu ráðherra sem skilaði tillögu. Sá hópur var þó ekki úr verkefnisstjórninni nema að hluta til. (MÁ: Nú? Hverjir voru …?) Þar voru líka formenn faghópa og fleiri þannig að … (MÁ: Þingmenn … Allir …) Þetta var ekki í samræmi við upphaflegu hugmyndirnar. (Gripið fram í.) Fólkið í þessum hópi kom ekki allt úr verkefnisstjórninni, (Gripið fram í.) ef ég má orða það þannig.

(Forseti (KLM): Ég vil biðja þingmenn um að gefa ræðumanni sem er í ræðustól kost á að flytja ræðu sína.)

Það er nú allt í lagi þó að Mörður Árnason sé að mjálma úti í sal, það stoppar ekki ræðu mína, virðulegi forseti.

(Forseti (KLM): Ég vil líka biðja þingmenn um að gæta orða sinna.) (MÁ: Hann er …)

Vinnubrögð ráðherra og tillögur þeirra eru í raun í engu samræmi við einkunnagjöf faghópanna eða niðurstöður verkefnisstjórnarinnar, alla vega ekki nema að litlu leyti. Búið er að setja þetta mál í pólitískan farveg og það var gert áður en það kom til þingsins þar sem það fær eðlilega pólitíska umfjöllun í hinni þinglegu meðferð.

Það er mjög áberandi ágreiningur innan stjórnarflokkanna. Hæstv. ráðherra sagði áðan að hún hefði viljað sjá fleira fara í verndunarflokk þegar við vitum að ákveðnir þingmenn innan stjórnarflokkanna mundu vilja ganga skemur í þeim efnum en fram kemur í þingsályktunartillögunni. Þannig verður það, það verða alltaf mjög mismunandi skoðanir um hversu langt á að ganga.

Hugmyndin sneri að því að koma málinu úr farvegi ágreinings, fara yfir það á faglegum forsendum og taka vinnu faghópanna til grundvallar þegar menn röðuðu niður virkjunarkostum. Ljóst var að ekki yrðu allir sáttir. Sjónarmiðin eru mjög mismunandi. Þau geta til dæmis verið það eftir búsetu eða hagsmunum einhverra, þannig að um þessi mál verða alltaf ólík sjónarmið.

Við getum farið hér yfir dæmi í þingsályktunartillögunni um virkjunarkosti sem falla alls ekki undir það sem við getum kallað faglega niðurstöðu. Við getum til dæmis tekið virkjunarkosti neðri hluta Þjórsár sem hljóta hér 15. og 16. sæti af 66 virkjunarkostum frá sjónarhóli nýtingar, eins og Holtavirkjun og Hvammsvirkjun. En frá sjónarhóli verndar lenda þessir kostir í 51. og 52. sæti. Þeir ættu augljóslega að fara í nýtingarflokk.

Við getum síðan tekið flokka eins og virkjunarkosti í Skagafirði, Skatastaðavirkjanir. Ég skil ekki af hverju Skatastaðavirkjanir eru í biðflokki í þingsályktunartillögunni vegna þess að ef farið er yfir niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar lenda þær í röðun frá sjónarhóli nýtingar í 51. sæti, en í 17. sæti út frá vernd. Þessir virkjunarkostir ættu augljóslega að fara í vernd, ef ég mætti raða þeim niður eftir faglegum niðurstöðum. Ég er alveg tilbúinn að kvitta upp á það.

Þá geri ég líka þær kröfur til þeirra sem ekki eru sammála mér að aðrir kostir eins og neðri hluti Þjórsár og Norðlingaölduveita, fari í nýtingarflokk og biðflokk, kannski af einhverjum ástæðum, á meðan verið er að vinna úr einhverjum upplýsingum, en augljóslega eiga þeir samkvæmt niðurröðun að fara í nýtingarflokk.

Það eru þær kröfur sem við verðum að gera til okkar þegar við ætlum að fjalla um málið á faglegum nótum. Við verðum öll að gefa eftir, öðruvísi náum við aldrei þeirri pólitísku niðurstöðu sem þarf að ná í málinu. Öðruvísi komumst við aldrei áfram. Það eru pólitísk fingraför á þessu máli nú þegar það kemur inn til þingsins, því miður.

Rammaáætlun verður aldrei endanlegt plagg, það getur aldrei orðið það. Rammaáætlun verður lifandi plagg í mörgu tilliti sem verður til umfjöllunar á hverjum tíma. Eitthvað getur breyst í náttúruvernd og viðmið okkar geta sömuleiðis breyst sem gerir það að verkum að við þurfum að líta öðruvísi á málin en áður. Hæstv. ráðherra nefndi áðan að kominn væri víðari skilgreining á víðernum. Við sjáum það líka að í áætluninni er tekið tillit til þess hversu nálægt virkjunarkostir liggja að friðlýstum svæðum. Nú gilda ekki mörk friðlýstra svæða heldur er farið að stækka þau í þessu sambandi.

Við sjáum líka það að tæknin við virkjanir er alltaf að þróast. Við sjáum það að skáboranir, til dæmis gagnvart jarðvarmavirkjunum, eru að verða mjög öflugar og munu gjörbreyta möguleikum okkar til nýtingar, jafnvel á viðkvæmum svæðum, í framtíðinni. Í dag geta menn borað um 1,2 km á ská frá borholu inn á svæði sem getur verið viðkvæmt. Í olíuiðnaði er það komið upp í um 15 km, held ég. Hver segir að við getum ekki borað kannski 10 km í jarðvarma með nýrri og aukinni tækni? Þá getum við farið að nýta svæði sem við viljum hafa ósnortin í náttúruverndarlegu tilliti.

Rammaáætlun verður því alltaf lifandi plagg, það verður aldrei hægt að setja punktinn yfir i-ið þar. Við munum þurfa að skoða málin miðað við aðstæður á hverjum tíma.

Tillaga okkar sjálfstæðismanna tekur til þess að við færum málið aftur í hinn faglega farveg. Að við stöndum við markmiðin og stóru orðin, að ráðherra verði skylt að kalla saman gömlu verkefnisstjórnina að nýju og henni verði falið að raða kostunum niður í flokka á faglegum forsendum. Þannig komi málið í óbreyttum búningi til þingsins fyrir 1. febrúar 2013. Þannig gætum við klárað rammaáætlun á þessu þingi fyrir vorið.

Ég held að það væri mjög mikilvægt ef við gætum komið okkur niður á þá niðurstöðu í staðinn fyrir að þröngva hér í gegn pólitískum skoðunum ráðherranna og ríkisstjórnarflokkanna, þá væri málið í uppnámi, eins og hv. þingmaður Pétur Blöndal benti svo réttilega á áðan.

Reynt er að gera hlutina tortryggilega, það þekkjum við. Hv. þm. Mörður Árnason reyndi að gera setu hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur tortryggilega í verkefnishópnum. Svona er þetta unnið, verið er að reyna að gera málin tortryggileg. Það minnir mig á hvalveiðimálið. Hvalveiðar áttu að hefjast aftur (Gripið fram í.) fyrir 20 árum þegar vera átti búið að staðfesta stofnstærðir. Það er löngu búið, en hvalveiðar eru ekki hafnar enn af því að það þarf alltaf að skoða eitthvað meira. (Gripið fram í.) Það eru vinnubrögð náttúruverndarsinna, að dreifa málunum og tefja þau. Það er endalaust hægt að deila. Það verða alltaf mismunandi hagsmunir.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum koma aðeins inn á það hvort málið eigi að fara til atvinnuveganefndar eða umhverfisnefndar þingsins. Það þarf ekkert annað en að lesa þingsköpin til þess.

Um atvinnuveganefnd stendur í þingsköpum, með leyfi forseta:

„Nefndin fjallar um sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál, iðnaðar- og orkumál, nýsköpun og tækniþróun, atvinnumál almennt og einnig nýtingu auðlinda á grundvelli rannsókna og ráðgjafar.“ (Forseti hringir.)

Skýrara getur það ekki verið, virðulegi forseti. Málið hlýtur (Forseti hringir.) að fara til atvinnuveganefndar nema ríkisstjórnarflokkarnir vilji núna fara að breyta túlkun sinni á þingsköpum (Forseti hringir.) sem samþykkt voru í júní síðastliðnum.