141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:47]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um vernd og orkunýtingu landsvæða. Áður en ég hef efnislega umfjöllun um þetta mál langar mig að svara þeim staðhæfingum sem hér hafa komið fram, bæði frá hæstv. umhverfisráðherra og hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, um að sjálfstæðismenn séu ekki náttúruverndarmenn í fyrsta lagi og í öðru lagi að nú beri nýtt við því að sjálfstæðismenn beri virðingu fyrir faglegu mati, að það sé algjörlega nýtt.

Í tilefni af því langar mig aðeins að tala um hvernig þessi rammaáætlun eða þetta mál sem hér er til umræðu kom til. Árið 1993 skipaði umhverfisráðherra starfshóp um umhverfismál, iðnþróun og orkumál sem skilaði af sér áliti árið 1995. Sá hópur lagði til að unnin yrði rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls í samræmi við samhæfða stefnu í umhverfis-, orku-, iðnaðar- og efnahagsmálum, eins og segir í greinargerð með þingsályktunartillögunni.

Í árslok 1995, eftir að Alþýðuflokkurinn var farinn úr ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokkurinn var kominn í ríkisstjórn, setti umhverfisráðherra á fót starfshóp sem fékk það verkefni að setja saman drög að framkvæmdaáætlun fyrir þetta mál. Árið 1997 var framkvæmdaáætlunin samþykkt í ríkisstjórn og markmið hennar var að leggja skyldi mat á og flokka virkjunarhugmyndir jafnt í vatnsafli sem háhita með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis samhliða því að skilgreina og meta og flokka áhrif þeirra á náttúrufar, náttúru og menningarminjar.

Árið 1999 er fyrsti áfangi rammaáætlunar settur á laggirnar með þeim markmiðum sem ég fjallaði um áðan en einnig með það að markmiði að reyna að ná sátt meðal þjóðarinnar um hvað skyldi virkja, hvað skyldi nýta og hvað skyldi friða. Með það að veganesti var lagt af stað í þessa miklu vinnu sem hefur tekið, ef við teljum til dagsins í dag, um 13 ár, kostað mörg hundruð milljónir kr. og gríðarlega vinnu sérfræðinga á þeim sviðum sem skipta máli fyrir verkefnið.

Eins og sjá má af ofangreindu getur ekki verið að það sé nýtilkomið, hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, að sjálfstæðismenn hafi áhuga á því að taka faglega á málum. Ég tel að orð hv. þingmanns dæmist dauð og ómerk við þessa upptalningu. Jafnframt held ég að það sé óhætt að segja hið sama um orð hæstv. umhverfisráðherra þess efnis að sjálfstæðismenn og náttúruvernd fari ekki saman, en það var nokkurn veginn inntakið þó að það sé ekki orðrétt haft eftir. Þetta er kannski álíka og þau ummæli sem hæstv. ráðherra lét hafa eftir sér í DV þegar hún var spurð af hverju væru alltaf deilur milli vinstri manna og hún svaraði því til að vinstri menn væru hugsjónafólk en hægri menn hugsuðu bara um hagsmuni, þannig mætti skýra muninn. Það sýnir hugarheim hæstv. umhverfisráðherra.

Ef við víkjum aðeins að þessari þingsályktunartillögu verð ég að viðurkenna að ég varð fyrir gríðarlegum vonbrigðum með að þetta einstaka tækifæri skyldi ekki vera nýtt til að skapa sátt um það til langframa í þjóðfélaginu, eins og var lagt upp með í upphafi, hvað skyldi nýtt og hvað friðað. Ég held að þetta hafi verið einstakt tækifæri og við málsmeðferðina nú á seinustu stigum málsins hafi það glatast. Það er ljóst að sáttin sem hefði verið hægt að ná mun aldrei nást á þennan hátt vegna þess að þetta mun leiða til þess að rammaáætlun verður einfaldlega stefna ríkjandi ríkisstjórna á hverjum tíma. Það er augljóst vegna þess að að minnsta kosti tveir flokkar á Alþingi eru ósammála þessari málsmeðferð og ósammála því hvernig staðið er að þessu máli. Þá hlýtur það að liggja í hlutarins eðli að málið verði tekið upp ef og þegar þeir flokkar komast til valda. Það held ég að sé augljóst. Það er ekki hægt að sætta sig við að þessari faglegu vinnu, þessari gríðarlega miklu og góðu vinnu, sem hefur staðið yfir í um það bil 13 ár og á sér enn lengri aðdraganda, sé spillt með pólitík.

Af hverju segi ég spillt? Vegna þess að það var farið inn í þá röðun sem sérfræðingahóparnir voru búnir að leggja til og togast á um virkjunarkosti. Vinstri grænir og Samfylkingin toguðust á um virkjunarkosti og við það breyttist röðunin. Þess vegna tel ég affarasælast að fara að þeim ráðum sem við sjálfstæðismenn viljum gefa og því frumvarpi sem við leggjum til, þ.e. að faghóparnir verði einfaldlega látnir klára vinnuna þannig að það verði algjörlega hafið yfir allan vafa að þessu hafi ekki verið raðað niður eftir pólitískum línum. Þannig er hægt að ná þeirri langvarandi sátt sem þarf að ná um þetta mál. Það er óþolandi bæði fyrir þá sem vilja ýtrustu kröfur í náttúruvernd og hina sem vilja nýtingu að þetta mál verði stöðugt á ferðinni eins og þessi málsmeðferð býður upp á. Þess vegna kemur þessi sáttatillaga fram í frumvarpi okkar sjálfstæðismanna. Það hljóta allir sanngjarnir menn að sjá að þetta er sú málsmeðferð sem skapar einna helst langvarandi sátt.

Hér hlæja hv. þingmenn úti í sal, en það eru einmitt þeir þingmenn sem hlæja hvað hæst sem gefa hvað minnst fyrir sáttina. Þeir skilja ekki virði þess að ná sátt um viðkvæma hluti til að íbúar hér á landi geti stefnt saman að einhverjum markmiðum, (Gripið fram í.) ekki í stöðugri sundrung, stöðugu niðurrifi og öðru slíku. Tíma mínum er lokið.