141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:57]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er rétt svo að ég hafi komist hingað upp í ræðustól því að ég var orðinn klökkur í lok ræðu hv. þingmanns áðan. Mig langar þó að spyrja hann, af því að Sjálfstæðisflokkurinn er með þessa miklu sáttatillögu: Er ekki best að sú verkefnisstjórn sem nú hefur verið skipuð — fimm ráðherrar skipuðu sína fulltrúa og síðan eru sex samtök og stofnanir, Samorka, Orkustofnun, Umhverfisstofnun og fleiri — ráði því hvernig þetta er gert? Ef þessi tillaga frá verkefnisstjórninni, algjörlega hrein og fagleg, kæmi inn á Alþingi er hætt við að hinir skítugu puttar stjórnmálamanna, hinir skítugu puttar hv. þingmanna Tryggva Þórs Herbertssonar og Marðar Árnasonar færu að skipta sér af.

Eigum við þá ekki að skipa til lífstíðar þessa tólf menn í verkefnisstjórninni og þeir bara ráði, Alþingi feli þeim að ráða þessu í framtíðinni? Lógíkin í hinni góðu sáttatillögu sjálfstæðismanna er að taka málið úr pólitíkinni og setja það í hendur hinnar faglega völdu verkefnisstjórnar Orkustofnunar, sveitarfélaganna, náttúruverndarsamtaka, Umhverfisstofnunar, Samtaka ferðaþjónustunnar og Samorku og fulltrúa sem forsætisráðherra, landbúnaðarráðherra, iðnaðarráðherra, menntamálaráðherra og umhverfisráðherra hafa skipað. Er það ekki?

Hv. þingmaður orðaði það þannig að skapa ætti sátt. Ég tel reyndar ekki að það hafi nokkurn tíma verið hugmyndin með rammaáætlun að skapa sátt um alla hluti heldur að skapa sátt um leikreglurnar sem við förum eftir. Það er mjög mikilvægt vegna þess að hingað til hafa hlutirnir verið ákveðnir á forsendum valdsins og peninganna. Hann sagði að rammaáætlun væri sumsé sátt um hvað skyldi nýtt og hvað friðað. Þess vegna langar mig að vita hvort hann telji að það sem ekki er friðað (Forseti hringir.) verði nýtt, það felist þá engin nýting í friðuninni, hún sé bara lúxus út í bláinn.