141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:00]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður segir að aldrei hafi staðið til að skapa neina sátt. Með leyfi virðulegs forseta langar mig að lesa upp úr skipun á bréfi verkefnisstjórnar en þar segir:

„Ríkisstjórnin hefur einsett sér að skapa sátt um vernd og nýtingu náttúrusvæða og leggur því áherslu á að ljúka sem fyrst …“ o.s.frv.

Svo mörg voru þau orð, hv. þingmaður.

Næsta er þetta með skítuga putta þingmanna á Alþingi. Gagnrýni okkar snýst fyrst og fremst um að það hafi verið puttar ráðherranna sem röðuðu þessu öllu saman niður. Þeir tóku fram fyrir hendurnar á mönnum í hinu faglega ferli og röðuðu kostunum upp á nýtt. (Umhvrh.: Samkvæmt lögum.)

Samkvæmt lögum, segir hæstv. ráðherra. Nákvæmlega þannig verður ósáttin til, að bitist er um þessi mál. Vinstri grænir og Samfylkingin hafa bitist um málið og gerð hefur verið einhver málamiðlun milli þeirra flokka, en það er þeirra málamiðlun. Það er ekki málamiðlunin sem við getum starfað eftir til langrar framtíðar þannig að við náum sátt um málið, eins og segir í skipunarbréfinu. Það er heila málið.