141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:08]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Mig langar í framhaldinu að spyrja hv. þingmann hvaða merkingu og hvaða túlkun hann leggi í hugtakið samráð og opið samráðsferli. Hvort hann telji að til dæmis að henda eigi umsögnum sem berast Alþingi við vinnslu mála í ruslafötuna rétt sisvona og ekki eigi að taka til greina ýmsar ábendingar sem þar koma fram.

Hlýtur það ekki einmitt að vera grunnhugmyndin með svokölluðu samráði og opnu umsagnarferli að þar komi fram eitthvað sem fólki hefur sést yfir? Þetta eru ekki orð guðs heldur einmitt mannanna verk.

Ef svo er, ber okkur þá ekki skylda til að fara frekar fram af varfærni en áhættusækni?

Í beinu framhaldi af þessu, hvernig er hægt að taka svo djúpt í árinni að segja að hér sé hinni miklu vinnu kastað fyrir róða?

Hvernig er hægt að segja að vinnan hafi öll farið fram í lokuðum herbergjum þegar umsagnirnar eru öllum opnar, fyrir utan það sem birtist á vefsíðum og barst til ráðherranna í vinnsluferli þeirra? Þangað barst þvílíkt magn umsagna og athugasemda og þátttakan var mikil. (Gripið fram í.) Þinginu barst fullt af mjög mikilvægum ábendingum sem okkur ber skylda til að taka til greina.