141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:11]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson gaf hér tímamótayfirlýsingu þess efnis að einsýnt væri af þeirri niðurstöðu sem fram kemur í þingsályktunartillögunni að henni yrði hnekkt ef og þegar Sjálfstæðisflokkurinn kæmist hér til valda á ný, eins og hann orðaði það.

Sem sagt, 13 ára faglegu verkferli með nákvæmri og málefnalegri málsmeðferð skal kastað fyrir róða þegar og ef, sem guð forði, Sjálfstæðisflokkurinn kemst til valda á ný. Vegna tillögu um að þrír virkjunarkostir, Þjórsá, Skrokkalda og Hágöngur, fari í biðflokk, vegna vöntunar á upplýsingum verði málið látið njóta vafans og þær verði settar í bið. Þessir þrír kostir. Mér datt bara í hug vísan gamla, ef ég má fara með hana, með leyfi forseta:

Lastaranum líkar ei neitt

lætur hann ganga róginn.

Finni hann laufblað fölnað eitt

þá fordæmir hann skóginn.

Það var nákvæmlega það sem fólst í orðum hv. þingmanns þegar hann taldi að það að setja þrjá virkjunarkosti í bið tímabundið væri nægilegt tilefni til að kasta fyrir róða þessari niðurstöðu, sem er 13 ára faglegt verkferli, ef Sjálfstæðisflokkurinn kæmist aftur til valda.